lau 21. nóvember 2020 19:37
Brynjar Ingi Erluson
England: Tottenham á toppinn eftir sigur á Man City
Heung-Min Son skoraði fyrir Tottenham í kvöld
Heung-Min Son skoraði fyrir Tottenham í kvöld
Mynd: Getty Images
Tottenham 2 - 0 Manchester City
1-0 Son Heung-Min ('5 )
2-0 Giovani Lo Celso ('65 )

Tottenham Hotspur er í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur á Manchester City í kvöld. Tottenham er í afar góðum málum og virðist ætla að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna þetta tímabilið.

Heimamenn komust yfir strax á 5. mínútu en Heung-Min Son gerði markið eftir góða sendingu frá Tanguy Ndombele. Ederson var alltof fljótur á sér og keyrði út í Son en Suður-Kóreumaðurinn klobbaði markvörðinn og skoraði örugglega.

Níu mínútum síðar kom Harry Kane knettinum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Aymeric Laporte taldi sig hafa jafnað metin á 27. mínútu er hann skoraði af stuttu færi en VAR dæmdi markið af þar sem Gabriel Jesus handlék knöttinn í aðdraganda marksins.

Man City var töluvert meira með boltann í leiknum en náði ekki að nýta sér það. Varnarmenn Tottenham voru duglegir að koma sér fyrir skotin og gekk allt upp hjá Lundúnarliðinu.

Giovani Lo Celso bætti við öðru fyrir Tottenham á 65. mínútu aðeins nokkrum sekúndum eftir að hafa komið inná sem varamaður. Harry Kane átti sendinguna á Lo Celso, sem var einn og óvaldaður vinstra megin á vellinum. Hann keyrði inn í teig og skoraði örugglega framhjá Ederson.

Frábær leikur hjá Tottenham og lokatölur 2-0. Það gekk allt upp hjá Jose Mourinho og liðið komið á toppinn með 20 stig en Man City í 10. sæti með 12 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner