sun 21. nóvember 2021 10:31
Brynjar Ingi Erluson
Solskjær rekinn frá Man Utd (Staðfest)
Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ole Gunnar Solskjær hefur verið rekinn frá Manchester United en þetta var ákveðið á neyðarfundi stjórnarinnar í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá United í dag.

Stjórnin boðaði til neyðarfundur klukkan 18:00 í gær eftir 4-1 tap United gegn Watford en þetta var fimmta tap liðsins í deildinni á þessu tímabili. Fundurinn stóð yfir í fimm klukkustundir.

Frammistaða United á þessari leiktíð hefur verið döpur og lítið um karakter í spilamennsku liðsins en síðasta stráið var tapið gegn Watford.

Á þremur árum hans við stjórnvölin tókst honum ekki að vinna titil en hann komst næst því í Evrópudeildinni á síðasta tímabili. Liðið beið hins vegar lægri hlut fyrir spænska liðinu Villarreal í úrslitum.

Solskjær fékk gríðarlega styrkingu í sumar í mönnum á borð við Raphael Varane, Jadon Sancho og Cristiano Ronaldo og átti það að koma félaginu í hæstu hæðir á ný. Það hefur hins vegar ekki tekist.

Eftir neyðarfundinn í gær var tekin sú ákvörðun að láta Solskjær taka poka sinn en ekki er búið að finna eftirmann hans. Michael Carrick tekur við tímabundið.

Franski þjálfarinn Zinedine Zidane er sagður efstur á blaði. Brendan Rodgers hefur einnig verið nefndur í þessu samhengi en auk þess hafa þeir Erik ten Hag og Mauricio Pochettino verið orðaðir við starfið.

United situr í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 17 stig, heilum tólf stigum á eftir toppliði Chelsea þegar tólf umferðum er lokið af móti.

Tilkynningin:

Ole verður alltaf goðsögn hjá Manchester United og það tekur okkur sárt að þurfa að taka þessa erfiðu ákvörðun. Þó svo síðustu vikur hafa verið mikil vonbrigði þá á það ekki að skyggja á alla vinnuna sem hann hefur unnið síðustu þrjú ár í að endurbyggja grunninn að árangri í framtíðinni.

Ole fær einlægar þakkir frá okkur fyrir þá þrotlausa vinnu sem stjóri félagsins og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni. Staður hans í sögu félagsins er alltaf tryggður og ekki fara sem leikmaður heldur sem frábær maður og stjóri sem gaf okkur mörg frábær augnablik. Hann mun alltaf vera velkominn á Old Trafford sem partur af Manchester United fjölskyldunni.



Athugasemdir
banner
banner