
Atli Viðar Björnsson fótboltasérfræðingur býst við að Arnar Gunnlaugsson haldi sig í grunninn við sama kerfi fyrir seinni leikinn gegn Kósovó. Atli ræddi um landsliðið í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.
Byrjunarliðið í fyrri leiknum vakti athygli en Arnar náði að koma öllum okkar helstu sóknarvopnum fyrir. Atla fannst vanta varnartengilið á miðjuna.
Byrjunarliðið í fyrri leiknum vakti athygli en Arnar náði að koma öllum okkar helstu sóknarvopnum fyrir. Atla fannst vanta varnartengilið á miðjuna.
„Ég hefði kosið að gera hlutina öðruvísi og hafa aðeins meira stál í liðinu. Nýtt lið, nýtt kerfi og verið að reyna fullt af nýjum hlutum. Það voru augljóslega hlutir sem voru ekki að virka nægilega vel og ég hefði viljað sjá aðeins fleiri á miðjunni og gera þetta aðeins passífara. Mér fannst vanta einhvern til að stýra liðinu og þétta það á miðjunni," segir Atli.
Hann spáir því að Andri Lucas Guðjohnsen fari úr byrjunarliðinu fyrir seinni leikinn en Andri náði ekki að sýna sínar bestu hliðar.
„Mér fannst hann pínu týndur og óöruggur með hlutverk sitt. Hann lagði sig allan í þetta og það vantar ekkert upp á vinnusemi. Hann hefði líklega þurft aðeins meiri undirbúning inn í þetta hlutverk, setja hann betur í hvað var ætlast af honum. Hann og fleiri týndust aðeins."
„Andri er öflugur að ráðast á fyrirgjafir en það voru engar fyrirgjafir í þessum leik. Við komumst örfáum sinnum í fyrirgjafarstöður og þegar þær stöður gáfust þá voru fyrirgjafirnar undantekningarlítið lélegar. Hans einkenni nýttust því ekki nægilega vel."
Kemur Júlli Magg í byrjunarliðið?
Atli segir að íslenska liðið þurfi líka að fá meira út úr Alberti Guðmundssyni og Hákoni Arnari Haraldssyni en kom í fyrri leiknum.
„Ég myndi giska á að Andri Lucas byrji á bekknum, ef kerfið verður svipað þá verði Albert og Hákon undir Orra. Ég held að Albert og Hákon muni ekki týnast eins mikið og þeir gerðu í fyrri leiknum. Ég er skotinn í þeirri pælingu að þeir verði fyrir aftan Orra," segir Atli.
Hann gæti séð Júlíus Magnússon koma inn í byrjunarliðið.
„Ég yrði ekkert hissa ef Arnar veðjar á sinn mann. Hann þekkir kerfið og vinnureglurnar út og inn," segir Atli en Júlíus lék fyrir Víking undir stjórn Arnars. Annars býst Atli við því að Arnar haldi sig við sama kerfi.
„Ég hef ekki trú á því að hann skipti um kerfi á morgun. Hann fór í kerfi sem hann var lítið búinn að drilla og nú hefur hann fengið daga til að sýna mönnum hvernig hann vilji að það virki. Ég set mína peninga á að hann haldi sig við svipað," segir Atli Viðar Björnsson.
Leikur Íslands og Kósovó verður klukkan 17 á morgun að íslenskum tíma, 18 að staðartíma. Kósovó vann fyrri leikinn 2-1 og möguleiki á að leikurinn á morgun endi í framlengingu og jafnvel vítakeppni.
Athugasemdir