Sergei Palkin, framkvæmdastjóri Shakhtar Donetsk í Úkraínu, segir að kantmaðurinn Mykhailo Mudryk hafi staðist lygapróf. Mudryk er að reyna að hreinsa nafn sitt eftir að hafa fallið á lyfjaprófi í nóvember síðastliðnum.
Mudryk hefur ekkert spilað með Chelsea eftir að málið kom upp en það er til rannsóknar hjá enska fótboltasambandinu.
Mudryk gekk í raðir Chelsea frá Shakhtar fyrir allt að 100 milljónir evra í janúar 2023 en félagið hafði þá unnið mikla baráttu við nágranna sína í Arsenal um undirskrift leikmannsins. Úkraínumaðurinn hefur valdið miklum vonbrigðum hjá Chelsea og lítið getað frammistöðulega séð.
Það var lyfið lyfið meldonium sem felldi Mudryk en hann neitar að hafa tekið það visvítandi. Mudryk gæti verið á leið í fjögurra ára bann.
Palkin segist hafa rætt margoft við Mudryk á síðustu mánuðum og leikmaðurinn kannist ekkert við það hvernig þetta gerðist.
„Lögmenn hans komu því í kring að hann tæki lygapróf sem hann svo gerði. Hann náði því prófi. Þeir munu nota það sem sönnunargagn," segir Palkin.
„Mudryk hefur verið skýr. Það er ekki honum að kenna að þetta gerðist. Við verðum að komast að því hvernig þetta gerðist. Lögmenn hans eru að reyna að komast til botns í þessu."
Palkin segir að það sé ekki enn komin niðurstaða úr B-sýninu sem var tekið úr Mudryk. Því sé málið enn opið.
Athugasemdir