Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. maí 2023 12:13
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Aron Einar: Þeir höfðu beðið í 30 ár eftir þessum titli
Aron Einar með liðsfélaga sínum.
Aron Einar með liðsfélaga sínum.
Mynd: Getty Images
Lið Al-Arabi eftir úrslitaleikinn.
Lið Al-Arabi eftir úrslitaleikinn.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fyrr í þessum mánuði fagnaði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson bikarmeistaratitlinum í Katar þar sem lið hans, Al-Arabi, vann Al-Sadd 3-0 í úrslitaleik Emír-bikarsins.

Þetta var í fyrsta sinn síðan 1993 sem Al-Arabi vinnur þennan titil en liðið fór í úrslitaleikinn undir stjórn Heimis Hallgrímssonar en tapaði þá fyrir Al-Sadd sem Xavi stýrði á þeim tíma.

„Við fórum fyrst í úrslitin þarna 2020, Covid tímabilið. Við áttum ekki að eiga mikinn möguleika í þetta lið þá og töpuðum 2-1. Við náðum að spila fínan leik þá. Að komast aftur núna í þennan úrslitaleik var mjög mikilvægt fyrir liðið og fyrir aðdáendurna. Þeir eru búnir að bíða núna í 30 ár eftir þessum titli. Það var sætt að klára þetta tímabil á þessu," segir Aron Einar en hann var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn.

„Frá því ég kom fyrir fjórum árum var planið að geta veitt Al-Duhail og Al-Sadd keppni. Við áttum að reyna að byggja upp lið til þess. Heimir gaf þessum strákum sem eru lykilmenn í þessu núna tækifæri og svo kemur katarskur þjálfari sem hafði gert vel hjá öðrum félögum þarna inn í þetta. Hann breytir ýmsu varðandi sóknarleikinn."

Skrítið tímabil vegna HM
Auk þess að vinna stóru bikarkeppnina í Katar þá endaði Al-Arabi í öðru sæti deildarinnar.

„Þetta tímabil var nokkuð skrítið vegna HM. Það kom stór pása í miðju HM. Al-Sadd missti marga leikmenn því landsliðsmennirnir fóru bara í sex mánaða undirbúningstímabil vegna HM. Þeir voru saman og fyrstu sex umferðirnar í deildinni voru spilaðar án landsliðsmannana frá Katar," segir Aron.

Heimamaðurinn Younes Ali stýrir Al-Arabi og segir Aron að hann sé mjög ólíkur Heimi.

„Hann er með Portúgala og Spánverja sem aðstoðarmenn og þeir vega hvorn annan vel upp. Hann nær vel til Katarana, meðan aðstoðarmennirnir tengja við útlendingana," segir Aron sem spilaði hluta tímabilsins sem miðvörður.

„Ég spilaði nánast allt tímabilið á miðjunni. Ég var aðeins að fylla upp í hafsent þegar það voru meiðsli."

Fjölskyldulífið er æðislegt þarna
Aron, sem er 34 ára, segist vissulega sakna klefastemningarinnar og hörkunnar í enska fótboltanum en er mjög ánægður í Katar. Hann verður áfram með Al-Arabi á næsta tímabili.

„Ég gerði samning fyrir síðasta tímabil, eitt ár og sjálfvirk framlenging um annað ef við myndum enda í topp fjórum og ég spila yfir 80% leikja. Ég er með því annað ár."

„Auðvitað hafa komið tímar þar sem maður hugsar með sér að maður væri til í gamla pakkann en svo hugsar maður hvort það væri eitthvað skárra fyrir líkamann, eða fjölskyldulífið. Við höfum það mjög gott í Katar. Þetta er svo lítið svæði að maður er ekkert að ferðast í útileiki. Það er ekki hægt að kvarta yfir neinu, fjölskyldulífið er æðislegt þarna og okkur líður vel. Líkaminn er svo í frábæru standi."

Tempóið í fótboltanum í Katar er allt öðruvísi en í Evrópu og Aron breytir æfingavenjum sínum þegar nálgast landsliðsverkefni hjá Íslandi.

„Þegar ég var orðinn vanur því að vera í Katar tempóinu fann ég fyrir því þegar ég kom í landsliðsumhverfið að ég var ekki klár í tempóið þar. Maður fann að það var mikill munur. Það er heitt í Katar og maður hefur ekki eins mikla orku. Mánuð fyrir landsleikjagluggann þarf ég að spýta aðeins í, fara í meira tempó sjálfur á æfingum og gera aukalega. Það hefur virkað vel," segir Aron Einar Gunnarsson.
Útvarpsþátturinn - Fyrirliði Íslands
Athugasemdir
banner
banner
banner