Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 22. maí 2023 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Besti leikur Mikaels í treyju AGF - „Hata að tapa og sérstaklega þegar við spilum frábærlega“
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson var langbesti leikmaður AGF í dramatísku 4-3 tapi gegn FCK í dönsku úrvalsdeildinni í gær en Tipsbladet segir þetta líklega besta leik hans fyrir félagið.

Mikael gegnir algeru lykilhlutverki á miðsvæði AGF og hefur byrjað alla leiki fyrir utan tvo þar sem hann kom inná sem varamaður.

Hann átti stórkostlega frammistöðu í tapinu gegn FCK í gær en liðsfélagi hans í landsliðinu, Ísak Bergmann Jóhannesson, sá um að leggja upp sigurmark FCK undir lokin.

Mikael skoraði annað mark AGF í leiknum og var besti maður liðsins í einum fjörugasta leik úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.

„Það komst enginn nálægt Mikael Anderson á þessum degi. Þessi orkumikli miðjumaður var út um allt á vellinum og skilaði líklega sinni bestu frammistöðu í treyju AGF og þá þegar liðið þurfti mest á honum að halda. Afgreiðslan í markinu var ísköld og þá átti hann skot í þverslá. Anderson sýndi mikinn vilja allan tímann og var hann aðalmaðurinn þegar AGF var upp á sitt besta í síðari hálfleik,“ segir í grein Tipsbladet.

Mikael ræddi við Bold eftir leikinn en hann var eðlilega svekktur með úrslitin.

„Þetta er alveg skelfilegt. Ég hata að tapa og sérstaklega þegar við spilum frábæran fótbolta. Allt í allt er ég ótrúlega stoltur af liðinu og mórallinn var góður en auðvitað mikil vonbrigði að ná ekki í að minnsta kosti stig þegar við erum svona góðir. Þetta var frábær fótboltaleikur þar sem bæði lið vildu vinna eins og þú sást,“ sagði Mikael við Viaplay eftir leikinn.

Mikael og félagar hans í AGF eru í fjórða sæti í meistarariðli úrvalsdeildarinnar með 47 stig, fjórum stigum frá Nordsjælland sem er í öðru sæti. Fjögur Evrópusæti eru í boði. Meistararnir fara í Meistaradeildina og þá fara liðin í öðru og þriðja sæti í Sambandsdeildina. Liðið sem hafnar í 4. sæti fer í umspil þar sem liðið spila við liðið sem hafnar í efsta sæti fallriðilsins, en sigurvegarinn úr þeirri viðureign fer í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Hér fyrir neðan má sá allt það helsta úr leiknum.


Athugasemdir
banner
banner