Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 22. maí 2023 10:00
Haraldur Örn Haraldsson
Höskuldur opnar sig um bróðurmissinn: Fótbolti mitt haldreipi
Höskuldur í leik með Breiðablik
Höskuldur í leik með Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur og strákarnir í Tiltalinu
Höskuldur og strákarnir í Tiltalinu
Mynd: Stefán Marteinn - fotbolti.net

Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks en hann var Íslandsmeistari með liðinu í fyrra. Hann var gestur í hlaðvarpinu Tiltalið í síðustu viku þar sem hann fór um víðan völl.


Meðal annars ræddi hann um fráfall bróður síns og hvernig það hefur haft áhrif á knattspyrnuferilinn hans og hvernig fótboltinn hefur haft áhrif á hans meðhöndlun á því.

„Ég átti mjög gott tímabil hérna heima en svo kemur áfall. Ég missi bróður minn og það gerir að verkum að ég ákveð að staldra við heima, maður var þannig brotinn að það var það eina í stöðunni að vera heima að jafna sig. En svo var planið alltaf að vera úti. Mér finnst alltaf gott að leiðrétta þann misskilning að maður hafi ekki verið einn af þeim sem gat ekki meðhöndlað að vera úti. Mér leið frábærlega í Svíþjóð og fannst það mjög gaman," sagði Höskuldur en hann spilaði með liðinu Halmstad í Svíþjóð en kom heim til Breiðabliks á láni sumarið 2019 til þess að koma sér aftur í form eftir meiðsli en endaði á að fara ekki aftur út.

Að byrja hugsa aftur um fótbolta eftir að missa bróður sinn
Hákon Guttormur Gunnlaugsson, bróðir Höskulds, lést aðeins 28 ára gamall árið 2019. Höskuldur spilaði leik gegn ÍA daginn eftir að hann lést en hann segir að það hafi verið gríðarlega erfitt að koma huganum aftur að fótbolta.

„Alveg klárlega mjög erfitt, það er bara erfitt að komast aftur inn í lífið af einhverju leiti. En fótboltinn var eiginlega mitt haldreipi í gegnum þetta og hefur verið það. Það var í rauninni á tíma eina festan þar sem maður gat leyft sér að gleyma sér, eða smá svona „get away". Þannig séð var fótbolti mér til halds og trausts í gegnum þetta, en svo fann maður alveg fyrir því, tímabilið 2020. Þótt ég ætti alveg fínt tímabil þá var ég ekki upp á mitt besta og skiljanlega, ég þurfti smá tíma til að ná vopnum mínum aftur. En það var aldrei þannig (að fótboltinn væri fyrir) þvert á móti að fótboltinn hélt eiginlega í manni eldinum. Þegar ég segi fótboltinn þá er ég eiginlega að meina fólkið, liðsfélagar og þetta samfélag. Fótbolti „per se" er frekar þýðingarlítill, það er fólkið sem gerir hann að því sem hann er. Þannig að þetta lét mann alveg meta fótboltann meira og á dýpra „leveli".

Óskar Hrafn Þorvaldsson verður þjálfari liðsins árið 2020 og gerir Höskuld að fyrirliða. Það var mjög þýðingarmikið fyrir hann á þessum erfiða tíma í lífinu. „Ég held svona eftir á, ekki það að það hafi verið tengt þessu en þegar ég lít til baka þá var það mjög mikilvægt hvað þetta varðar. Fyrir mig að fá svona enn stærra ábyrgðarhlutverk, það gerði mér gott á þessum tímapunkti."

Hægt er að hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.

Tiltalið: Höskuldur Gunnlaugsson
Athugasemdir
banner
banner
banner