
Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var á skotskónum fyrir varalið þýska stórveldisins Bayern München í gær.
Varaliðið var að leika sinn næstsíðasta deildarleik á tímabilinu en liðið leikur í B-deildinni í Þýskalandi. Nurnberg var andstæðingurinn en Bayern vann sannfærandi sigur.
Karólína byrjaði og spilaði allan leikinn, en hún skoraði þriðja og síðasta mark Bayern í uppbótartímanum. Lokatölur voru 3-0.
Þetta var fyrsti deildarleikurinn sem Karólína spilar með varaliðinu á þessari leiktíð en hún spilaði tvo deildarleiki með liðinu á síðasta tímabili. Hún hefur aðeins leikið 188 mínútur með aðalliði Bayern í þýsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var í markinu hjá Bayern í þessum leik en hún hefur spilað 16 leiki á þessu tímabili í þýsku B-deildinni.
Varalið Bayern er í fjórða sæti B-deildarinnar í Þýskalandi þegar ein umferð er eftir. Aðallið félagsins er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar fyrir lokaumferðina þar.
Athugasemdir