mán 22. maí 2023 20:26
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Svíþjóð: Arnór Ingvi með sjálfsmark í Íslendingaslag
Arnór Ingvi
Arnór Ingvi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún Arnardóttir
Guðrún Arnardóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Norrköping fékk Elfsborg í heimsókn í Íslendingaslag í efstu deild í Svíþjóð í dag.


Leikurinn var liður í 9. umferð en Elfsborg var með 19 stgi í 3. sæti fyrir leikinn á meðan Norrköping var í 4. sæti með 17 stig.

Arnór Sigurðsson sá til þess að Norrköping var með 1-0 forystu í hálfleik en hann skoraði eftir tæplega hálftíma leik.

Elfsborg jafnaði metin þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og tíu mínútum síðar varð Arnór Ingvi Traustason fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem tryggði Elfsborg stigin þrjú.

Arnór Ingvi spilaði allan leikinn en Arnór Sigurðsson fór af velli á 80. mínútu fyrir Andra Guðjohnsen.

Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði Elfsborg en bræðurnir voru ekki inná á sama tíma þar sem Sveinn fór af velli á 57. mínútu. Hákon Rafn Valdimarsson stóð vaktina í marki Elfsborg.

Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn í 1-0 sigri Kalmar gegn Varnamo en Kalmar er í 6. sæti með 14 stig eftir sigurinn.

Í næst efstu deild voru Rúnar Þór Sigurgeirsson og Alex Þór Hauksson í byrjunarliði Öster sem tapaði 2-1 gegn Vasteras. Vasteras er á toppnum með 18 stig eftir 8 umferðir en Öster í 4. sæti með 13 stig.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í 2-2 jafntefli Rosengard gegn Hammarby í efstu deild kvenna í Svíþjóð. Rosengard klikkaði á vítaspyrnu í uppbótartíma. Liðið er með 15 stig í 7. sæti eftir níu umferðir.

Rosengard hefur orðið sænskur meistari í þrígang á síðustu fjórum árum.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner