Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. maí 2023 13:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Vonandi verður sumarið geggjað og við náum í sex stig“
Icelandair
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron á landsliðsæfingu.
Aron á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar skoraði þrennu gegn Liechtenstein.
Aron Einar skoraði þrennu gegn Liechtenstein.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef verið í vikufríi núna og er að byrja að æfa núna á mánudag og ætla að keyra þetta í gang. Ég ætla að vera í mínu besta formi þegar þessi Slóvakíuleikur verður," segir Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði sem er mættur til landsins eftir að tímabilinu lauk hjá Al-Arabi í Katar.

Ísland leikur gríðarlega mikilvægan leik gegn Slóvakíu í undankeppni EM á Laugardalsvelli þann 17. júní og svo annan heimaleik, gegn Portúgal, í sama glugga.

Var ömurlegt að vera upp í stúku
Aron er kominn aftur á fulla ferð með íslenska landsliðinu og mun leika sína fyrstu leiki á Laugardalsvelli síðan 2020.

„Ég hef alltaf sagt það að ég hef lifað fyrir landsliðið og fótboltaferillinn mikið snúist um landsliðið. Það var alltaf planið hjá mér að koma til baka og sýna úr hverju ég er gerður og hjálpa liðinu. Eins og við vitum öll þá hafa kynslóðaskiptin tekið smá tíma. Það er gott að hafa reynslumikla menn til staðar," segir Aron.

Ísland hefur spilað tvo leiki í undankeppninni. Aron var í banni í 0-3 tapi í Bosníu en skoraði svo þrennu í 7-0 sigri gegn Liechtenstein.

„Ég hefði verið mega til í að spila þennan Bosníuleik. Það var ömurlegt að vera uppi í stúku. Það er svo auðvelt að sitja þar og sjá hvað er í gangi, hvað er að fara úrskeiðis. Ég sjálfur hefði reynt að skipuleggja þetta einhvern veginn öðruvísi ef ég hefði verið inná, með varnarleikinn. Það er vissulega gott að vera vitur eftirá en það voru ýmsir hlutir sem maður sá upp í stúku og var pirraður yfir að geta ekki lagað sjálfur."

Spenntur fyrir þeim breytingum sem hann ætlar að koma með
Eftir þann landsleikjaglugga urðu þjálfaraskipti. Norðmaðurinn Age Hareide er tekinn við liðinu og er Aron spenntur fyrir hans hugmyndum.

„Ég þekkti hann ekki fyrir en hafði talað við Kára (Árnason) og spurt út í hann. Ég átti gott spjall við Age eftir fyrsta blaðamannafundinn hans og það var virkilega gott spjall. Ég er spenntur fyrir þeim breytingum sem hann ætlar að koma með, en auðvitað er þetta úrslitatengt. Hann þarf að ná í úrslit. Það er það sem hann þarf fyrst og fremst að einbeita sér að," segir Aron.

„Hann ætlar að endurskipuleggja varnarleikinn. Hann ætlar að leita í gömlu gildin sem hafa virkað fyrir okkur áður og vonandi virkar það áfram. Það þarf samt smá tíma til að venjast nýjum þjálfara en gott að við ætlum að byrja saman aðeins fyrr."

Þurfum að búa til þessa gryfju aftur
Ellefu dögum fyrir leikinn gegn Slóvakíu kemur íslenska liðið saman.

„Ég hlakka til að mæta á fyrstu æfingu 6. júní. Vonandi verður sumarið geggjað og við náum í sex stig. Okkur líður vel hérna á sumrin," segir Aron.

„Það var alveg vitað fyrir þessa keppni að við þurfum að vinna þessa leiki heima. Þetta eru liðin sem við verðum vonandi í baráttu við um þetta fræga sætið. Ef við erum raunsæir þá reiknum við með því að Portúgal taki fyrsta sætið. Við þurfum að vinna þessa heimaleiki og búa til þessa gryfju aftur."

Tekur eitt sumar með Þór og hugurinn stefnir í þjálfun
Í viðtalinu, sem hægt er að hlusta á í spilaranum hér að neðan eða í hlaðvarpsveitum, ræðir Aron nánar um landsliðið og einnig um framtíðina. Aron, sem er 34 ára, setur enn stefnuna á að klára leikmannaferilinn með Þór Akureyri.

„Ég er búinn að lofa mér heim eitt sumar með Þór. Ég hef lofað því og svík það ekki. Ég er að taka þjálfaragráðu núna í Wales, A-gráðuna, svo kemur í ljós hvort ég hafi áfram 100% áhuga á að fara í þjálfun eða ekki. En eins og mér líður núna þá tel ég að ég muni þjálfa," segir Aron Einar Gunnarsson.
Útvarpsþátturinn - Fyrirliði Íslands
Athugasemdir
banner
banner
banner