Real vill Trent - Man Utd mun ekki reyna við Southgate - Aston Villa býr sig undir að keppa um Williams
banner
   lau 22. júní 2024 19:00
Sölvi Haraldsson
Besta deildin: Rosalegar lokamínútur er HK vann Stjörnuna
HK-ingar unnu glæsilegan sigur á Stjörnunni í kvöld
HK-ingar unnu glæsilegan sigur á Stjörnunni í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

HK unnu frekar óvæntan 4-3 sigur á Stjörnunni í Bestu deildinni í kvöld inni í Kórnum. HK-liðið er núna aðeins þremur stigum frá Evrópusæti en þeim var spáð falli fyrir mót.

HK 4 - 3 Stjarnan
0-1 Emil Atlason ('1 )
1-1 Arnþór Ari Atlason ('27 )
2-1 Viktor Helgi Benediktsson ('45 )
3-1 Hilmar Árni Halldórsson ('48 , sjálfsmark)
3-2 Haukur Örn Brink ('87 )
3-3 Emil Atlason ('89 )
4-3 Atli Hrafn Andrason ('92 )
Lestu um leikinn


Það tók Stjörnuna ekki nema u.þ.b. 30 sek að taka forystuna. Þá átti Helgi Fróði stórglæsilega sendingu upp á Emil Atla sem var komin einn á móti Arnari í marki HK og klárar glæsilega framhjá honum.

Stjörnumenn tóku yfir leikinn og fengu færi til að bæta í. Birkir Valur bjargaði HK á 23. mínútu með björgun á línu. Skömmu síðar varði Arnar Freyr glæsilega frá Helga Fróða og svo aftur skömmu seinna gegn Emil Atla.

Þegar fyrri hálfleikurinn var u.þ.b. hálfnaður jafnaði Arnþór Ari metinn fyrir HK með alvöru marki. Skot sem fór í slána og inn eftir undirbúning Kristjáns Snæ. 

Emil Atla fékk enn eitt færið sitt í leiknum í dag skömmu fyrir hálfleik þegar hann á skot rétt framhjá marki HK. En HK-ingar tóku forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Viktor Helgi skallar boltann í netið eftir hornspyrnu George Nunn. HK-ingar voru búnir að vera að hóta Stjörnunni með föstum leikatriðum.

Í upphafi síðari hálfleiks var Hilmar Árni fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir aðra hornspyrnu George Nunn og HK komnir í 3-1.

Eftir frekar rólegan seinni hálfleik átti heldur betur eftir að draga til tíðinda. En Stjörnumenn minnkuðu muninn í 3-2 á 87. mínútu með marki frá Hauki Brink, sem skoraði sitt þriðja mark á tímabilinu. Tveimur mínútum síðar jafnaði Emil Atla leikinn og allur vindur farinn úr HK. 

Hins vegar gerðist eitt svakalegt á 92. mínútu leiksins þegar Atli Hrafn vinnur boltann á miðjum vellinum og tekur skotið frá miðju sem endar í netinu. Þetta svakalega mark Atla reyndist sigurmark HK í leiknum.

HK, sem var spáð falli fyrir mót, eru núna þremur stigum frá Evrópusæti sem verður að teljast gífurlega vel gert.


Athugasemdir
banner
banner
banner