fim 22. júlí 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hetjan úr undanúrslitaleiknum ótrúlega missir af úrslitaleiknum
Breiðablik vann dramatískan sigur á Val.
Breiðablik vann dramatískan sigur á Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta var rosalegur rússíbanaleikur'
'Þetta var rosalegur rússíbanaleikur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda varð tvítug í síðasta mánuði. Hún á að baki fimm A-landsleiki.
Áslaug Munda varð tvítug í síðasta mánuði. Hún á að baki fimm A-landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar spila við Þrótt í úrslitaleiknum.
Blikar spila við Þrótt í úrslitaleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég mun seint gleyma þessum leik," segir Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks, um undanúrslitaleikinn gegn Val í Mjólkurbikar kvenna.

Leikur Breiðabliks og Vals var einhver skemmtilegasti leikur sumarsins og endaði hann með 4-3 sigri Blika. Valur jafnaði í 3-3 í uppbótartíma, en Áslaug Munda skoraði sigurmarkið áður en flautað var af.

Sjá einnig:
Tveir af skemmtilegustu leikjum sumarsins - „Frábær auglýsing"

„Þetta eru að mínu mati skemmtilegustu leikirnir til að spila," segir Áslaug í samtali við Fótbolta.net um leikina gegn Val. Þetta eru tvö bestu lið landsins og alltaf mikið fjör þegar þessi lið mætast. Breiðablik hafa unnið báða leikina gegn Val í sumar - til þessa.

„Það eru sterkir andstæðingar í öllum stöðum og það þýðir ekkert slór í svona leikjum. Ef maður gefur ekki 100% í leikinn þá tapar maður."

Rússíbanaleikur
Bikarleikurinn síðasta föstudagskvöld var hinn ótrúlegasti. Svona þróaðist leikurinn:

1-0 Agla María Albertsdóttir ('21 )
2-0 Selma Sól Magnúsdóttir ('47 )
2-1 Mary Alice Vignola ('48 )
2-2 Ída Marín Hermannsdóttir ('65 )
3-2 Taylor Marie Ziemer ('74 )
3-3 Fanndís Friðriksdóttir ('91 )
4-3 Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir ('92 )

Uppbótartíminn var aðeins tvær mínútur og var staðan 3-2 fyrir Blika þegar hann hófst.

„Þetta var rosalegur rússíbanaleikur, en bæði lið voru alveg líkleg til að skora og maður þurfti alveg að berjast fram að lokamínútu. Hins vegar, þegar ég sá að uppbótartíminn væri einungis tvær mínútur þá hélt ég nú að við gætum haldið þetta út. En þá kemur Fanndís með þetta lúmska skot í nærhornið og jafnar," segir Áslaug Munda.

Hvað gerist þarna?
Eins og Blikinn kemur inn á, þá jafnaði Fanndís Friðriksdóttir metin. Hún jafnaði á fyrstu mínútu uppbótartímans. Blikar svöruðu strax. Áslaug Munda slapp einhvern veginn í gegn og skoraði sigurmarkið.

„HVAÐ ER Í GANGI HÉRNA!!!!! ÁSLAUG MUNDA ER AÐ KOMA BLIKUM AFTUR YFIR AÐEINS NOKKRUM SEK EFTIR JÖFNUNARMARK VALS. ÉG Á EKKI TIL ORÐ. Blikar æða af stað í sókn og Áslaug bara klárar í netið," skrifaði Hulda Katrín Jónsdóttir í beinni textalýsingu.

Hvernig lýsir markaskorarinn þessu dramatíska marki?

„Þetta gerðist svo hratt. Ég tók miðju, sendi stuttan á Selmu Sól sem gefur hann til baka á Kristínu Dís. Þá kemur Kristín Dís með þessa geggjuðu sendingu alla leið inn í teig hjá Val og ég ákvað bara að hlaupa."

Mörkin úr leiknum má sjá neðst í fréttinni og auðvitað er þar á meðal sigurmarkið dramatíska.

Tilfinningin var mjög góð. Það voru allir í sæluvímu í langan tíma eftir leikinn. Það var ekki einfalt að sofna um kvöldið. Ég hugsa að ég hefði ekki verið svona rosalega hátt uppi ef síðustu mínúturnar hefðu ekki verið svona spennandi."

Er á leið í Harvard
Úrslitaleikurinn fer fram 1. október næstkomandi og Áslaug Munda býst ekki við því að spila með liði sínu á Laugardalsvelli. Hún er á leið í Harvard háskólann í Bandaríkjunum - einn besta háskóla í heimi - í næsta mánuði þar sem hún mun spila fótbolta meðfram náminu.

„Ég stefni á að fara út í skóla í ágúst svo ég missi því miður af úrslitaleiknum en ég hef fulla trú á að stelpurnar taki þennan leik og vinni bikarinn."

Andstæðingurinn í úrslitaleiknum er öflugt lið Þróttar, sem lagði FH í hinum undanúrslitaleiknum.

„Þróttur er með virkilega sterkt lið, svo sá leikur verður ekkert auðveldur. Við verðum að leggja okkur allar fram í þann leik ef við viljum vinna hann," segir einn af efnilegustu leikmönnum landsins.

Þess má geta að Breiðablik vann 7-2 sigur á ÍBV í Pepsi Max-deildinni á þriðjudag og er tveimur stigum frá toppliði Vals. Hver veit nema að það verði úrslitaleikur í deildinni á milli þessara lið í næsta mánuði? Liðin mætast 13. ágúst næstkomandi.


Athugasemdir
banner
banner