banner
   mán 19. júlí 2021 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tveir af skemmtilegustu leikjum sumarsins - „Frábær auglýsing"
Breiðablik vann ótrúlega dramatískan sigur á Val.
Breiðablik vann ótrúlega dramatískan sigur á Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Þróttar og FH.
Úr leik Þróttar og FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur fer í úrslitaleikinn í fyrsta sinn.
Þróttur fer í úrslitaleikinn í fyrsta sinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tvö bestu lið landsins mættust á Kópavogsvelli úr varð stórkostlegur leikur.
Tvö bestu lið landsins mættust á Kópavogsvelli úr varð stórkostlegur leikur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru fram tveir frábærir í Mjólkurbikarnum síðastliðinn föstudag; undanúrslitin voru spiluð.

Þróttur Reykjavík komst í úrslit í fyrsta sinn í sögunni með 4-0 sigri á FH þar sem stemningin var mikil. Það var leikur sem galopnaðist á síðustu 20 mínútunum. Seinna um kvöldið vann Breiðablik svo 4-3 sigur á Val í hreint út sagt mögnuðum leik.

Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net um Pepsi Max-deild kvenna. Í dag var hann fenginn til að skoða leikina tvo sem voru í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

„Þetta voru klárlega tveir af skemmtilegustu leikjum sumarsins og ágætis vísbending um að við þurfum að fá fleiri leiki sem skipta miklu máli," segir Jói.

„Það er auðvelt að ofpeppast eftir þessa tvo leiki, en það er svo sem tími til að koma niður á jörðina fyrir næsta leik í þessari keppni.
Þessir leikir voru frábær auglýsing fyrir kvennaboltann. Pepsi Max deildin (hjá báðum kynjum reyndar) þarf að fá leiki í ætt við þessa í hverri umferð. Það er auðvelt að hrósa öllum fjórum liðunum, leikmönnum og þjálfurum fyrir þessi undanúrslit. Frábær skemmtun!"


Þróttur - FH
Leikur Þróttar og FH var mjög jafn framan af. Á köflum var FH sterkari aðilinn og þær voru nálægt jöfnunarmarki áður en Þróttur komst í 2-0 á 69. mínútur. Jói gefur FH, sem er í Lengjudeildinni, stóran plús fyrir þennan leik.

„Ég hef verið hrifinn af Þrótti í sumar. Þær eru með flott lið og leikmenn innanborðs sem geta unnið leiki. Ég gef FH stóran plús fyrir þennan leik. Þær mættu með vopnin á lofti og ætluðu aldrei í einhvern varnarleik og vonast eftir einhverju í lokin. Bæði lið vilja sækja og leikurinn fín skemmtun, þó tölurnar í endann hafi verið ansi afgerandi."

„Sigurinn var sanngjarn, en það voru augnablik í leiknum sem duttu ekki með FH og hefðu mögulega getað breytt atburðarrásinni eitthvað. Vel gert hjá báðum liðum og umgjörðin og stemningin frábær á þessum leik. Það er gaman að sjá að það er hægt að ná upp góðri stemningu á leik í kvennaboltanum. Stundum hefur verið eins og það sé illmögulegt. Þetta er ekkert mál. Meira svona!"

Breiðablik - Valur
Leikur Breiðabliks og Vals var einhver skemmtilegasti leikur sumarsins og endaði hann með 4-3 sigri Blika. Valur jafnaði í 3-3 í uppbótartíma, en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði sigurmarkið áður en flautað var af.

„Tvö bestu lið landsins að mætast í undanúrslitum. Þetta var stórgóður leikur og liðin lögðu allt á borðið. Fyrir hinn hlutlausa áhugamann þá var þetta svolítill rýtingur í bakið hjá Mundu í restina; það voru allir - sem voru að horfa á þennan leik - klárir í framlengingu. Við vildum meiri fótbolta, ákefð og baráttu. Það var kannski við hæfi að leikurinn endaði með þessum hætti. Magnaður fótboltaleikur tveggja góðra liða og augljóst hvað þeim langaði að komast í úrslitaleikinn."

„Nú getur maður ekki beðið eftir næsta leik þessara liða í deildinni. Ég skora á alla að taka þann dag frá í dagatalinu. Þessi lið eiga inni að fá alvöru stemningu og fleiri áhorfendur á þann leik," segir Jói.

Pressan á Blikum fyrir úrslitaleikinn
Því miður þá verður fótboltaáhugafólk að bíða þangað til í október eftir úrslitaleiknum. Úrslitaleikurinn verður 1. október á Laugardalsvelli. Jói segir að pressan sé á Blikum fyrir þann leik.

„Já, pressan er vissulega á Blikum fyrir úrslitaleikinn. Þróttur er þarna í fyrsta sinn og hafa bókstaflega allt að vinna. Það má gera ráð fyrir að aðdragandinn verði svolítið ólíkur hjá liðunum. Sama hvað hver segir, þá er Breiðablik augljóslega sigurstranglegri á meðan Þróttur getur kannski notið undirbúningsins, og dagsins, þokkalega áhyggjulausar."

„En til að hætta þessu klisjuröfli, þá er leikurinn spennandi fyrirfram enda Þróttur stórhættulegt lið. Bikarinn er skemmtileg keppni og úrslitin ekki alltaf eftir bókinni. Svo virðist sem þjálfari Þróttar sé klókur að lesa í andstæðinginn og takist vel að rýna í Blikaliðið þá gætum við fengið spennandi úrslitaleik í október. En miðað við styrk leikmannahópa og fyrstu ellefu í báðum liðum, þá ætti Breiðablik að vinna þennan leik."

„Annars er ekki tímabært að spá í þann leik alveg strax kannski. Leikmenn fara í skóla og við vitum lítið hvernig liðin líta út þegar líða fer að jólum. Eina sem maður vonast eftir er að veðrið verði skaplegt og fólk flykkist á völlinn. Þetta eru yfirleitt stórskemmtilegir úrslitaleikir og spennandi. Það er vel hægt að gera þá enn meira aðlaðandi og eftirminnilegri með því að fjölmenna," segir Jóhann.

Allir á völlinn!
Athugasemdir
banner
banner
banner