Fótboltakeppnin á Ólympíuleikunum fer af stað á miðvikudaginn og verður spilað í sjö borgum í Frakklandi. Úrslitaleikirnir í karla- og kvennaflokki verða spilaðir á Prinsavöllum í París. BBC skoðaði stærstu nöfnin í fótboltanum á Ólympíuleikunum.
Julian Alvarez (Argentína) - Nýkominn frá Bandaríkjunum þar sem Argentínumenn unnu Copa America. Alvarez er 24 ára sóknarleikmaður sem skoraði ellefu mörk fyrir Manchester City á síðasta tímabili. Argentínumenn eru sigurstranglegastir á Ólympíuleikunum.
Marta (Brasilía) - Marta er lifandi goðsögn í kvennaboltanum. Hún er 38 ára og hyggst leggja landsliðsskóna á hilluna eftir leikana. Hún hefur tvisvar fengið silfur á Ólympíuleikunum en nú ætlar hún að kveðja með gulli.
Alexandre Lacazette (Frakkland) - Thierry Henry þjálfari franska Ólympíuliðsins valdi Lacazette til að vera fyrirliði liðs síns á leikunum. Þessi 33 ára sóknarmaður skoraði 22 mörk í 35 leikjum fyrir Lyon á síðasta tímabili.
Aitana Bonmatí (Spánn) - Í fyrsta sinn sem Spánn á kvennalið á Ólympíuleikunum. Eru með eitt sigurstranglegasta lið mótsins. Hin 26 ára Bonmatí er þekkt fyrir það að skína á stærsta sviðinu. Hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Barcelona.
Achraf Hakimi (Marokkó) - Þessi 25 ára leikmaður missir af undirbúningstímabili Paris St-Germain þar sem hann verður á Ólympíuleikunum.
Wendie Renard (Frakkland) - Þessi 34 ára varnarmaður tekur þátt í sínum þriðju Ólympíuleikum. Hefur leikið 160 landsleiki fyrir Frakkland en hefur aldrei unnið stóran titil með þjóð sinni.
Fermín López (Spánn) - Var í hópnum hjá Spáni sem vann EM. Kom aðeins við sögu í einum leik í Þýskalandi en vonast til að skrifa söguna og verða sá fyrsti til að vinna EM og Ólympíugull sama sumarið. López skoraði ellefu mörk fyrir Barcelona á síðasta tímabili.
Linda Caicedo (Kólumbía) - Þessi nítján ára leikmaður sló rækilega í gegn á HM og fór til Real Madrid. Markið hennar gegn Þýskalandi var tilnefnt til Puskas verðlaunanna.
Naby Keita (Gínea) - Fyrrum leikmaður Liverpool er fyrirliði Gíneu. Þessi 29 ára leikmaður Werder Bremen átti erfitt tímabil í Þýskalandi en vonast til að láta ljós sitt skína með landsliðinu.
Athugasemdir