
Í Innkastinu í gær var rætt um þau tíðindi sem bárust í vikunni að Ian Jeffs yrði ekki áfram þjálfari Þróttar í Reykjavík. Jeffs kom Þrótti upp úr 2. deildinni í fyrra og hélt liðinu uppi í Lengjudeildinni á þessu tímabili.
„Mér finnst þetta mjög óvænt, hann var að skila mjög góðu starfi með þetta Þróttaralið. Maður sá alveg á Þróttaraliðinu að það var einkenni á spilamennskunni," segir Baldvin Már Borgarsson í þættinum.
Sögur eru þó í gangi um að eitthvað hafi gengið á bak við tjöldin og Jeffs hafi fundið að hann hefði ekki 100% traust allra í kringum.
„Ég heyrði að hugsanlega væri Helgi Sig að fara að taka við Þrótturum. Það er leigubílasaga sem ég heyrði," segir Baldvin en Helgi Sigurðsson hætti sem þjálfari Grindavíkur á miðju tímabili í sumar.
Í Innkastinu er Haraldur Árni Hróðmarsson, fyrrum yfirþjálfari yngri flokka Þróttar, nefndur en Haraldur er aðstoðarþjálfari hjá ÍA. Einnig er Brynjar Kristmundsson, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, orðaður við starfið en hann er ungur og spennandi þjálfari.
Í þættinum er einnig talað um leikmannamál Þróttar en það verður erfitt fyrir félagið að halda Hinriki Harðarsyni. Sóknarmaðurinn ungi átti frábært sumar og ÍA er að reyna að fá hann í sínar raðir. Líklegt er að fleiri félög blandi sér í baráttuna.
Þá er sagt að Þróttarar ætli að leggja kapp á að fá Hauk Pál Sigurðsson aftur heim. Þessi 36 ára miðjumaður hefur aðeins spilað ellefu leiki með Val í Bestu deildinni í sumar.
Athugasemdir