Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 22. október 2019 08:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri Rúnar: Vonandi kominn á fullt í nóvember
Andri Rúnar í treyju Kaiserslautern.
Andri Rúnar í treyju Kaiserslautern.
Mynd: Getty Images
Andri Rúnar í vináttulandsleik í nóvember í fyrra.
Andri Rúnar í vináttulandsleik í nóvember í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Rúnar Bjarnason gekk í raðir þýska félagsins Kaiserslautern í júni. Andri var áður á mála hjá Helsingborg í Svíþjóð en skrifaði undir tveggja ára samning við Kaiserslautern.

Andri Rúnar er Bolvíkingur og spilaði yfir 150 leiki fyrir BÍ/Bolungarvík áður en hann skipti til Víkings R. fyrst og svo til Grindavíkur. Hjá Grindavík blómstraði hann og vakti athygli á sér utan landsteinanna. Andri skoraði 19 mörk í Pepsi-deildinni árið 2017.

Andri byrjaði vel hjá Kaiserslautern og skoraði eftir innan við tvær mínútur í fyrsta æfingaleiknum með nýja félaginu. Þá skoraði hann einnig sigurmark í æfingaleik gegn Wimbledon. Greint var frá því um miðjan september að Andri Rúnar hefði verið mikið meiddur í byrjun leiktíðar. Fótbolti.net hafði samband við Andra og tók stöðuna á honum í Kaiserslautern.

Meiðsli og veikindi verið að hrjá framherjann

„Ég byrja á því að skipta spiltímanum frekar mikið með öðrum á undirbúningstímabilinu eins og allt liðið. Planið var alltaf að ég myndi koma inn á í fyrstu leikjunum til að komast inn í hlutina hjá nýju félagi.

„Í vikunni áður en ég á að byrja fyrsta leikinn togna ég frekar illa á æfingu í náranum. Ég er frá í einhverjar 5 vikur vegna þeirra meiðsla og svo á fyrstu æfingunni minni þegar ég kem til baka lendi ég í því að togna á innra liðbandi á ökklanum."

„Þá hefst aftur það ferli hjá mér að komast til baka og ég er kominn í hóp gegn Jena (5. október). Eftir þann leik lendi ég í veikindum og get ekki æft í viku og var rétt að komast í gang fyrir síðasta leik svo ég var ekki klár þá."


Bjartara framundan

Andri Rúnar er allur að koma til og stefnir á að vera kominn á fullt fljótlega. „Ég verð vonandi kominn á fullt núna í nóvember. Ef allt gengur að óskum og vikan þróast vel vona ég að ég verði kominn í hópinn fyrir leikinn á sunnudaginn" sagði Andri Rúnar að lokum.

Kaiserslautern er í 16. sæti í 3. Bundesliga sem er þriðja efsta deild í Þýskalandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner