Ómar Björn Stefánsson gekk í síðustu viku í raðir ÍA frá uppeldisdélagi sínu Fylki. Hann hefur verið undir smásjá Skagamanna í lengri tíma og reyndu þeir fyrir síðasta tímabil að fá hann og bróðir Ómars, Stefán Gísla, frá Fylki en það tókst ekki.
Ómar er tvítugur sóknarmaður sem vill helst spila í fremstu línu en getur einnig leyst kantstöðurnar. Hann ræddi við Fótbolta.net um skiptin.
Ómar er tvítugur sóknarmaður sem vill helst spila í fremstu línu en getur einnig leyst kantstöðurnar. Hann ræddi við Fótbolta.net um skiptin.
„Ég er mjög sáttur að vera orðinn leikmaður ÍA, Skagamenn eru búnir að vera frábærir í sumar og það eru flottir hlutir í gangi upp á Skaga. Ég vissi af áhuga frá þeim og eftir að hafa hitt þá og séð á hvaða vegferð þeir eru þá varð ég mjög heillaður. Það er gríðarlegur metnaður á Skaganum, þú finnur það mjög sterkt og ég fann að ég var tilbúinn að taka þetta skref. Ég fann fyrir miklum áhuga frá þeim og það hjálpaði mér svakalega að taka ákvörðun. Ég er líka að fíla boltann sem þeir spila, held hann henti mér mjög vel," segir Ómar.
„Þeir sýndu áhuga í fyrra og eftir að ég ákvað að koma heim úr námi þá komu þeir fljótt inn í þetta. Ég fann fljótt að mig langaði að kýla á þetta."
Ómar átti samtal við fyrirliða ÍA áður en hann tók ákvörðun. „Maður kannast náttúrulega við flest alla í liðinu bara í gegnum boltann. Ég átti samtal við Arnór Smára áður en ég tók lokaákvörðunina."
Ómar fór til Bandaríkjanna í háskólanám í lok júlí. Hann ákvað hins vegar að hætta snemma í náminu og er kominn aftur til Íslands. Fannstu að það skipti Skagamenn máli að þú værir ekki á leið erlendis á næsta ári?
„Ég get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir því, en ég reikna með að þetta henti þeim betur."
Hvernig er að fara frá Fylki?
„Það erfitt að fara frá sínum uppeldisklúbb, ég er búinn að vera í Árbænum allan ferilinn minn. Þetta er frábær staður og geggjaður klefi. Mínir bestu vinir eru þar og á ekkert nema góðar minningar þaðan. Jú, klárlega var möguleiki að vera áfram og kom það alveg til greina en mig langar að skora á sjálfan mig. Því held ég að þetta sé rétta skrefið hjá mér og er ég gríðarlega spenntur að fara í ÍA."
Ómar var búinn að spila sig í góðan gír skömmu áður en hann fór út til Bandaríkjanna og var það blóðtaka fyrir Árbæinga að missa hann út. Hann er svekktur með tímabilið hjá liðinu.
„Þetta var ekki eins og við ætluðum okkur en svona er boltinn, það getur allt gerst. Ég er nú alveg sáttur með sjálfan mig í heildina á þessu tímabili en auðvitað er margt sem hefði mátt gera betur," segir Ómar sem skoraði tvö mörk í deildinni og eitt í bikarnum í sumar.
En er ekkert mál að þurfa að keyra á Akranes á æfingar?
„Nei nei, það verður ekkert mál að keyra upp á Skaga. Er bara spenntur fyrir þessu öllu."
Þú ert með treyju númer 80 á myndinni, er það handahófskennt eða verður þú númer 80?
„Þetta er ekki handahófskennt. Úr því sem var í boði þá fannst mér þessi tala eitthvað nett og passa fyrir mig."
Ómar byrjar að æfa með ÍA þegar nýtt undirbúningstímabil hefst. Hann ætlar þó að byrja sjálfur að æfa aðeins fyrr.
„Ég byrja að æfa með þeim eftir tímabilið sem er að klárast núna. Ég reikna með að byrja að æfa eitthvað aðeins fyrr með Dean Martin áður en æfingarnar byrja svo aftur fyrir nýtt tímabil."
Athugasemdir