Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   þri 22. október 2024 14:14
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Þakklæti og virðing í garð leiðtoganna þriggja - „Þarf að láta rannsaka þetta genamengi"
Stofnun innan Stjörnunnar, Herra Garðabær.
Stofnun innan Stjörnunnar, Herra Garðabær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni var einn allra besti leikmaður efstu deildar um árabil.
Hilmar Árni var einn allra besti leikmaður efstu deildar um árabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrrum landsliðsmaðurinn Þórarinn Ingi hefur átt mjög farsælan feril.
Fyrrum landsliðsmaðurinn Þórarinn Ingi hefur átt mjög farsælan feril.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslandsmeistarinn Daníel Laxdal.
Íslandsmeistarinn Daníel Laxdal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bikarmeistarinn Þórarinn Ingi.
Bikarmeistarinn Þórarinn Ingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar í landsliðsverkefni 2019.
Hilmar í landsliðsverkefni 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Það vantar ekki ástríðuna í Tóta.
Það vantar ekki ástríðuna í Tóta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel hefur allan sinn feril leikið með Stjörnunni.
Daníel hefur allan sinn feril leikið með Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Eysteinn
Helgi veitti Hilmari viðurkenningu í sumar.
Helgi veitti Hilmari viðurkenningu í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þannig karakter hefur Daníel og hans fólk að geyma'
'Þannig karakter hefur Daníel og hans fólk að geyma'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klukkan 14:00 á laugardag fer lokaumferðin í Bestu deildinni að mestu leyti fram. Ljóst er að nokkrir leikmenn eru að spila sína síðustu leiki á ferlinum. Arnór Smárason og Birkir Már Sævarsson leggja skóna á hilluna eftir leik Vals og ÍA og á Samsungvellinum verða þrír leikmenn kvaddir.

Þeir Daníel Laxdal og Hilmar Árni Halldórsson eru að hætta og Þórarinn Ingi Valdimarsson er að kveðja eftir sjö tímabil í Garðabæ. Formaður meistaraflokks ráðs karla hjá Stjörnunni, Helgi Hrannarr Jónsson, ræddi við Fótbolta.net um þremenningana sem eru að kveðja.

Rannsóknarefnið Daníel Laxdal
Herra Stjarnan er að kveðja, 38 ára miðvörður, stofnun innan Stjörnunnar. Íslands- og bikarmeistari með félaginu, fór með liðinu upp 2008 og hefur allan sinn feril verið hjá Stjörnunni. 529 KSÍ leikir og 17 mörk. Kveðjuleikurinn verður því 530. leikurinn á ferlinum.

„Ég er búinn að vita af því að þetta stæði til í smá tíma og búinn að fyllast smá söknuði yfir þessu sjálfur. Ég man eiginlega ekki eftir því að Danni hafi ekki verið inn á vellinum hjá okkur og ég held það sé ekki hægt að lýsa því hvað Daníel Laxdal hefur gert fyrir Stjörnuna sem félag, eða Garðbæinga yfir höfuð."

„Danni er gæi sem hefur alltaf gengið fram með góðu fordæmi, hann er sá sem tekur best á móti nýjum mönnum sem koma til félagsins. Þó að hann sé kannski ekki háværastur í hópnum þá gengur hann alltaf fram með góðu fordæmi. Daníel er að mínu mati mikilvægasti leikmaður eins liðs, allavega í seinni tíð, og heiður að hann hafi verið hjá okkur allan þennan tíma. Hann er kominn með yfir 500 leiki fyrir eitt og sama félagið, sem er einsdæmi. Þetta er alveg einstakur náungi og það hafa verið forréttindi að vera í starfinu þar sem hann hefur fengið að fagna sigrum og stórum tímamótum á sínum ferli, og líka að fá að vera í kringum hann."

„Börnin í Garðabænum hafa litið upp til hans, hann gefur af sér inn í samfélagið. Hann skilur eftir skarð sem verður ekki fyllt. Það kemur alltaf maður í manns stað og allt það, en þetta skarð verður aldrei fyllt, það mun enginn í nútímafótbolta ná svona stöðu innan eins félags. Það er svo mikilvægt fyrir hvaða klúbb sem er að eiga svona eintak. Hann nýtur gríðarlegrar virðingar og ég held það sé enginn sem hefur kynnst honum innan vallar sem utan sem ber ekki virðingu fyrir honum fyrir það sem hann er. Hann er stórkostlegur drengur og auðvitað frábær fótboltamaður."


Hefur hann á síðustu árum verið nálægt því að fara frá Stjörnunni?

„Aldrei. Daníel hefur aldrei verið nálægt því að fara frá Stjörnunni, það hefur aldrei borist í tal. Hann er þannig náungi að ef honum myndi snúast hugur á morgun þá myndi ég gera við hann tveggja ára samning. Hann er ennþá með topphraða, ennþá í toppstandi, meiðist lítið, það þarf að láta rannsaka þetta genamengi eitthvað."

Daníel var á tíma fyrirliði Stjörnunnar en hefur ekki borið bandið undanfarin ár.

„Það eru margir leiðtogar innan hvers liðs og einhver einn sem ber bandið. Danni hefur alltaf leitt með góðu fordæmi innan vallar. Þegar liðsfélagarnir þurfa spark í rassinn þá er hann kannski ekkert að öskra á þá, heldur fer og tekur 70 metra sprett og fer í tæklingu og smitar þannig út frá sér. Leiðtogar koma í alls konar formum og gerðum."

Andlegi leiðtoginn Hilmar Árni
Hilmar Árni er 32 ára sóknarsinnaður miðjumaður sem var, áður en hann meiddist illa snemma árs 2022, einn allra besti leikmaður efstu deildar á Íslandi. Hann skoraði alls 59 mörk í deildinni tímabilin 2016-2021. Hann er að leggja skóna á hilluna en tekur að sér þjálfun í yngri flokkum hjá Stjörnunni.

Þegar Hilmar kom til Stjörnunnar frá Leikni, áttuðuð þið ykkur á því hversu góður leikmaður hann var?

„Kannski ekki alveg fyrst, þótt hann hafi átt mjög flott tímabil með Leikni áður en hann kom. Það varð mjög snemma ljóst hverslags náungi þetta var. Það eru nokkur ár þar sem það eru fáir leikmenn sem eru klínískari en Hilmar, gríðarlega mörg mörk á hverju einasta tímabili og hafði mikil áhrif. Það er sama með Hilmar og Danna, hann er ekki maður sem er mikið að trana sér fram, hann er bara góður liðsfélagi, náungi sem áttar sig smátt og smátt á því að þakið hans er töluvert hærra en hann sjálfur kannski áttaði sig á áður. Hilmar hefur haldið áfram að bæta sig þó að kastljósið hafi aðeins horfið af honum. Hann hefur reynst liðinu gríðarlega drjúgur þó svo að hann hafi ekki skorað jafnmörg mörk og hann gerði áður."

„Meiðslin settu strik í reikninginn. Hilmar hefur líka þurft að ganga í gegnum erfiðleika í sínu lífi og slíkir hlutir geta haft áhrif innan vallar. Hann hefur farið í gegnum slíkar áskoranir með bravör. Hann er þannig að ef hann væri ekki að hætta núna þá veit ég að hann yrði betri á næsta ári, af því hann er þannig gerður. Hann er ennþá að bæta sig sem kannski hljómar skringilega. Hann er algjörlega geggjaður gæi."

„Það er gríðarlega sterkt að halda honum innan félagsins. Krakkarnir sem hann er að fara þjálfa hafa alist upp við að fara á völlinn og horfa á Hilmar vera aðalmanninn, gæjann sem skorar mörkin og dregur vagninn. Ég ber miklar væntingar til þess að hann mun gera ungu leikmennina okkar andlega tilbúnari heldur en þeir hefðu kannski annars verið. Ég er hrikalega ánægður að halda Hilmari innan félagsins."

„Sama með Danna, miðað við hans karakter, þá verður hann fyrsti maðurinn til að mæta á fyrsta leikinn á næsta tímabili, mætir með árskort og verður búinn að bjóða sig fram í að aðstoða áður en það verður spurt. Þannig karakter hefur Daníel og hans fólk að geyma."


Af þeim þremur þá eru óvæntustu tíðindin þau að Hilmar sé að leggja skóna á hilluna.

„Hilmar nálgaðist mig og þjálfara liðsins fyrr í sumar á þeim nótum að þetta væri það sem hann væri að spá. Það hefði getað gerst að hann myndi hætta fyrr, Hilmar er mjög andlega þenkjandi náungi og fótbolti skilgreinir hann ekki. Mér finnst þetta mögnuð ákvörðun hjá honum, en ég virði hana. Ég veit að það myndi ekki þýða neitt að reyna tala hann af þessari ákvörðun, hann er búinn að ákveða að hans orka fer í aðra hluti."

Sem leikmaður Stjörnunnar spilaði Hilmar fjóra A-landsleiki.

„Okkur finnst að það hefðu átt að vera fleiri Stjörnumenn sem hefðu náð að spila landsleik á síðustu árum, en það er alltaf gaman að eiga landsliðsmann. Hilmar var upp á sitt besta að mínu mati veturinn áður en hann meiddist illa, þá var hann á ótrúlegum stað með þróunina á sínum ferli, hann var að bæta sig í öllum þáttum og var að leiða ungu strákana sem voru þá enn yngri. Hann hélt áfram að leiða þá í gegnum meiðslin, sýndi hversu flott fyrirmynd hann er."

„Geggjað að spila landsleiki, en þeir hefðu alveg mátt vera fleiri."


Gæðastjórinn Þórarinn Ingi
Þórarinn Ingi kom til Stjörnunnar frá FH í maí 2018, og varð líkt og Hilmar og Daníel, bikarmeistari með Stjörnunni þá um haustið. Hann er mjög fjölhæfur leikmaður sem missti af tímabilinu 2020 vegna erfiðra meiðsla.

„Tóti er gjörsamlega einstakur náungi af því leyti að hann kemur með anda og karaktereinkenni sem sífellt færri koma með að borðinu í íslenskum fótbolta, því miður segi ég. Hann leggur sig 100% fram í verkefnin, ætlast til mjög mikils af öllum, lætur heyra í sér og þú nennir ekki að lenda í því að fá hann á bakið á þér af því þú vannst ekki vinnuna þína. Svoleiðis náungar eru gulls ígildi."
   01.05.2021 23:48
Sigur að koma til baka eftir 18 mánuði - „Hefði í raun getað endað ferilinn"

„Hann lenti í mjög alvarlegum meiðslum og ræddi við ykkur á Fótbolti.net eftir að hann kom aftur. Einhverjum fannst það ein af mínum skrítnari ákvörðunum að framlengja við Tóta þegar búist var við því að hann myndi ekki snúa aftur á völlinn. Ég gerði það einfaldlega til þess að segja við hann að það væri full trú á því að hann myndi komast aftur á völlinn og til að styðja við bakið á honum."

„Tóti hefur verið okkur ótrúlega mikilvægur. Hann hefur hluti sem ekkert allir leikmenn hafa. Hann er fjölhæfari en menn átta sig á og gefur sitt. Það hefur verið leiðinlegt í sumar að hann hefur aðeins verið að glíma við meiðsli. Sama og með hina strákana, þá er hann ótrúlega einstakur náungi sem við erum að kveðja núna. Það að þeir séu þrír á sama tíma er stórt. Tóti á skilið mikla virðingu og ég er sannfærður um að hann mun áfram vera inni í okkar starfi."


Það eru ekki allir leikmenn gæðastjórar en Tóti er einn af þeim, hann er tilbúinn í að láta í sér heyra og heldur mönnum á tánum.

„Ungu strákarnir kalla þetta gamla skólann. Gæðastjórnun á æfingum, þú getur rétt ímyndað þér hvernig Þórarinn Ingi Valdimarsson er á æfingum ef menn eru ekki að taka á því."

Gríðarlegt þakklæti og mikil virðing
Helgi ræddi svo um þremenningana í sameiningu.

„Þegar við fórum af stað árið 2020 með algjörlega breytt ásýnd þá eru þessir þrír að kveðja fullt af fullorðnum leikmönnum og fá til sín bunka af mjög ungum leikmönnum. Þeir eiga skilið mikla virðingu fyrir að vera tilbúnir í það með okkur. Það eru ekkert allir eldri leikmenn sem myndu sætta sig við að það væru komnir 10-15 leikmenn 15-17 ára inn í klefann. Þeir þrír hafa tekið því vel, kvörtuðu aldrei og voru kannski í stærsta hlutverkinu í að draga vagninn áfram í okkar verkefni. Sem maðurinn sem talaði fyrir þessu verkefni er ég þeim gríðarlega þakklátur. Þeir hafa gert það að verkum að þessar breytingar gengu upp, þeir eiga rosalega stóran hlut í þessu. Mikil virðing frá klúbbnum í heild sinni."

Þurfa að sækja leikmenn
Ljóst er að mikil reynsla er að hverfa úr hópnum hjá Stjörnunni. Er næg reynsla í þeim mönnum sem eftir eru til að taka liðið áfram?

„Í þessu prógrami sem við fórum af stað með á sínum tíma, þá vissum við að þessir menn myndu ekki verða eilífir. Það voru leikmenn sem við sóttum á ákveðnum aldri sem vantaði kannski inn í félagið. Þeir aðilar munu stíga upp núna."

„Í dag er mikill áhugi á 2-3 leikmönnum erlendis frá og það má búast við því að þeir leikmenn reyni að stíga það skref. Við erum búnir að sækja leikmann fyrir næsta tímabil sem er gríðarlega spennandi (fyrrum landsliðsmanninn Samúel Kára Friðjónsson) og mun koma með annars konar dýpt inn í hópinn og við erum ekkert hættir. Við veljum mjög vel inn í hópinn okkar, viljum fá menn til lengri tíma. Það verður erfitt að fylla þessi skörð, en við teljum okkur vera með lausnir innan hópsins. Við vitum samt að við munum þurfa að sækja leikmenn og það er á fleygiferð núna,"
segir Helgi Hrannarr.
Athugasemdir
banner
banner
banner