Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 01. maí 2021 23:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sigur að koma til baka eftir 18 mánuði - „Hefði í raun getað endað ferilinn"
Liðsstjóri númer tvö
Liðsstjóri númer tvö
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í stúkunni með Atla Viðari í fyrra
Í stúkunni með Atla Viðari í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigur að koma til baka
Sigur að koma til baka
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jobbi erfiður
Jobbi erfiður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórarinn Ingi Valdimarsson er aftur orðinn klár í slaginn eftir langa fjarveru vegna hnémeiðsla. Hann sleit krossband sumarið 2019, missti af seinni hluta þess tímabils sem og öllu tímabilinu í fyrra. Þórarinn kom við sögu í tveimur leikjum Stjörnunnar í Lengjubikarnum í vetur.

Þórarinn var ónotaður varamaður þegar Stjarnan gerði 0-0 jafntefli gegn Leikni í kvöld. Fréttaritari hafði samband við Þórarinn á dögunum og spurði hann út í stöðuna.

„Endurhæfingin hefur gengið vel hjá mér. Dóri sjúkraþjálfari stjórnar eins og herforingi. Staðan í dag er þannig að það er eitthvað í land varðandi að vera leikfær. Tíminn leiðir það í ljós” sagði Þórarinn fyrir rúmu ári.

Byrjum á síðasta tímabili. Málin þróuðust þannig að Þórarinn lék ekkert með Stjörnunni í fyrra. Voru það vonbrigði?

„Nei, í raun ekki. Þetta voru það alvarleg meiðsli að þetta hefði í raun alveg getað endað ferilinn. Gott fólk í kringum mig og klúbbinn sem hélt mér á jörðinni," sagði Þórarinn.

Davíð Sævars liðsstjóri númer eitt
Hvernig var að fylgjast með frá hliðarlínunni?

„Ég var með í öllum leikjum í fyrra sem liðsstjóri nr. 2 þar sem Davíð Sævars tók það skýrt fram frá byrjun að hann væri nr. 1. Það er alltaf erfitt að horfa á leikinn utan frá en gott að vera í kringum hópinn og gera eitthvað gagn þótt kannski lítið sé."

Urðu einhver bakslög í endurhæfingunni?

„Nei í raun ekki, ég fékk reyndar eftir þessa tvo leiki í Lengjunni högg á hnéð sem að hélt mér frá fótbolta í c.a. tvær vikur. Það er lítið þegar horft er yfir næstum því tvo ár."

Sýnir hvernig klúbbur Stjarnan er
Tók þetta mikið á andlega að ná ekkert að sprikla á vellinum í þetta langan tíma?

„Já, auðvitað tekur þetta mikið á andlega en það er eitthvað sem þú vinnur í með endurhæfingu. Ég hef verið að hitta sálfræðing sem að hjálpar mikið ásamt því að hafa gott fólk í kringum mig."

„Allir sem að tengjast Stjörnunni hvort sem það eru leikmenn, þjálfarar, stjórn, stuðningsmenn eða sjálfboðaliðar hafa einnig hjálpað mér mikið. Sama hvert þú horfir í félagið voru allir tilbúnir að hjálpa mér. Það er eitthvað sem að maður er virkilega þakklátur fyrir og sýnir hvernig klúbbur Stjarnan er."


Sigur að koma til baka
Stjarnan var ekki með í undirbúningsmótum áður en Lengjubikarinn hófst. Varstu orðinn klár áður en Lengjubikarinn hófst?

„Það ver ekki langt síðan ég var klár í að spila. Þótt þú kannski æfir allar æfingar þá eru leikir ekki það sama. Þú getur stýrt álagi á æfingu en þegar komið er í leiki er það allt annað."

Hvernig var að klæðast treyjunni og takkaskónum í leik eftir 18 mánaða fjarveru?

„Það var virkilega góð tilfinning. Þótt það séu ekki margar mínútur í þessum tveimur leikjum er það bara sigur að hafa komið til baka eftir þessi meiðsli."

Hvernig er hnéð í dag?

„Hnéð í dag er bara mjög gott, engu yfir þar að kvarta."

King Ejub og auðveldasta ákvörðun í heimi
Þú skrifaðir undir tveggja ára samning við Stjörnuna, ertu þakklátur að fá traust til tveggja ára?

„Já, í raun kom ekkert annað til greina hjá mér en að framlengja við Stjörnuna. Það kom annað tilboð frá öðru liði en eftir allt þetta ferli var þetta auðveldasta ákvörðun í heimi."

Einhver sem hjálpaði þér eitthvað sérstaklega í endurhæfingarferlinu?

„Það voru margir sem að hjálpuðu mér mikið. Kannski er bara best að telja þá alla upp: Örnólfur, Dóri , Frikki, Árni, Eyjó, Óli Árna, þjálfararnir og svo má ekki gleyma king Ejub sem að tók mig á svakalegar aukaæfingar."

Saknar Jobba þó erfiður sé
Að komandi tímabili, Jobbi hætti í vetur og samkeppnin öðruvísi núna. Hver eru þín markmið upp á sumarið að gera?

„Markmið mín eru að koma mér inn í liðið á þessu tímabili eftir þessi meiðsli. Jobbi hætti eftir síðasta tímabil og er ég ekki frá því að maður sakni hans smá þótt erfiður sé. Tristan hefur stigið mikið upp í vetur og hefur staðið sig vel. Það er því mitt hlutverk að ýta á hann og halda honum á tánum," sagði Þórarinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner