Football & Fun
Alþjóðlegt fótboltamót eldri flokka, Football & Fun, fer fram í 18. skipti laugardaginn 8. nóvember í Egilshöll í Reykjavík. Um 50 lið með yfir 400 leikmenn frá 12 löndum eru nú þegar skráð til þátttöku í mótinu og þar af eru 27 erlend lið. Mótið er eins og undanfarin ár haldið af Fylki og Þrótti í Reykjavík með stuðningi Reykjavíkurborgar og bakhjarli mótsins frá upphafi, Würth á Íslandi.
„Þróttur oldboys gengu til liðs við Fylkismenn sem mótshaldarar Football & Fun fyrir nokkrum árum og við mætum til leiks með sjö lið í ár. Knattspyrnumót af þessu tagi eru af öðrum þræði mikilvægar uppskeruhátíðir fyrir boltahópa á öllum aldri. Það er sprúðlandi fjör hjá eldri iðkendum hér á landi og fjöldinn hjá sumum félögum er umtalsverður. Við erum til dæmis um 200 talsins hjá Þrótti oldboys og höldum tvö önnur stórmót árlega, Lava Cup í Skotlandi á vorin og Rey Cup Senior í Laugardal um mitt sumar,” segir Indriði Waage hjá Þrótti oldboys.
Á Football & Fun er leikið á fjórðungi af velli og sex leikmenn eru inni á vellinum hverju sinni, þar af einn markvörður. Vinalegar leikreglur gilda: tæklingar eru bannaðar og innspörk fyrir neðan hné eru í stað innkasta. Keppt er í fjórum flokkum karla (30+, 40+, 50+ og 60+) og þremur flokkum kvenna (22+, 30+ og 40+). Mótið fer fram kl. 9-16. Glæsilegt lokahóf verður síðan í Valsheimilinu á Hlíðarenda um kvöldið með sælkeramat, verðlaunaafhendingu og skemmtun fram eftir nóttu.
Enn er opið fyrir skráningar íslenskra liða á Football & Fun og eru áhugasamir leikmenn hvattir til að skrá til leiks bæði lið og leikmenn á vefsíðu mótsins: footballandfun.is.
Athugasemdir