
Ingimar Arnar Kristjánsson er gríðarlega efnilegur leikmaður Þórs í Lengjudeildinni en hann hefur fengið að spreyta sig í fjarveru Alexanders Márs Þorlákssonar í undanförnum leikjum.
Ingimar er framherji sem hefur komið við sögu í fimm leikjum á þessari leiktíð en hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu tveimur leikjum gegn Leikni, hann skoraði eitt og lagði upp annað í 3-1 sigri Þórs á Leikni í Mjólkurbikarnum á dögunum.
Ingimar er nýorðinn 18 ára en hann kom einnig við sögu í þremur leikjum á síðustu leiktið. Þór hefur gefið mörgum ungum leikmönnum tækifæri undanfarin ár en Bjarni Guðjón Brynjólfsson er m.a. í u19 ára landsliðinu sem er á leið á EM.
Þorlákur Árnason þjálfari Þórs hrósaði ungu strákunum á hástert eftir sigur Þórs gegn Leikni í deildinni á dögunum.
„Þetta eru gríðarlega góð tíðindi fyrir okkur Þórsara. Hann er fæddur 2005 og við höfum komið upp gríðarlega mörgum strákum fæddum 2004, Kristófer [Kristjánsson], Bjarni [Guðjón Brynjólfsson] og Aron Ingi [Magnússon]. Svo kemur enn einn, á meðan við keyrum á þessari hugmyndafræði þá koma alltaf upp leikmenn, þeir fá að spila og á endanum verðuru nógu góður," sagði Láki.