Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 23. maí 2023 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Carragher biður Lisandro og alla stuðningsmenn Man Utd afsökunar
Lisandro Martínez.
Lisandro Martínez.
Mynd: Getty Images
Carragher.
Carragher.
Mynd: Twitter
Jamie Carragher, sérfræðingur á Sky Sports, hefur beðið Lisandro Martínez afsökunar. Hann bað á sama tíma alla stuðningsmenn Manchester United afsökunar. Hann gerir það út af ummælum sínum um argentínska miðvörðinn í ágúst.

Of lítill fyrir úrvalsdeildina
„Við ættum aldrei að dæma leikmenn eða stjóra of snemma. En ég er viss um að þetta getur ekki gengið, því hann er 175 sm hár og spilar í fjögurra manna línu. Kannski gæti hann spilað í vinstri bakverði eða í þriggja miðvarða kerfi. En í úrvalsdeildinni getur hann ekki spilað í fjögurra manna línu," sagði Carragher um Martínez í ágúst.

United var þá búið að tapa gegn Brighton og Brentford og Carragher nefndi að liðin hefðu viljandi beitt löngum sendingum meira en venjulega vegna þess hversu lágvaxinn Martínez er.

„Ég held að öll lið ættu að leggja upp með að fara þessa leið í sóknarleik gegn United. Mér finnst þetta vera risavandamál hjá liðinu," sagði Carragher.

Casemiro og Lisandro skipt sköpum
Í Monday Night Football á Sky Sports í gær sagði valdi Carragher Martínez sem það sem hefði komið honum mest á óvart á tímabilinu. Til samanburðar nefndi Gary Neville, sem var með Carragher í þættinum, 1-5 útisigur Everton gegn Brighton sem það óvæntasta.

„Þetta hefur ekkert með Lisandro Martínez að gera, þetta hefur með alla miðverði sem koma í úrvalsdeildina og eru talsvert undir sex fetum (~182 sm). Maður hugsar að þeir muni allir eiga í vandræðum, en hann hefur ekki átt í slíkum vandræðum. Allir leikmenn eru með veikleika og bestu leikmennirnir fela þá, enginn er fullkominn. Ég var sjálfur ekki hávaxnasti miðvörðurinn og hafði áhyggjur að ég yrði étinn í loftinu. Hann er örugglega um 7-10 sm minni en ég."

„Það er mikill missir þegar Casemiro er ekki í liðinu og mér finnst það vera mikill munur ef Lisandro er ekki í liðinu. Bæði varnarlega og gæðin sem hann sýnir þegar hann er með boltann. Hann er stríðsmaður, leiðtogi og hann og Casemiro í hryggjarsúlunni hafa skipt sköpum. Ég bið Lisandro og alla stuðningsmenn United afsökunar, það væri gott ef þið gætuð hætt að tengja mig við færslur um Lisandro Martínez,"
sagði Carragher á léttu nótunum.

Lisandro er 25 ára örvfættur miðvörður sem keyptur var frá Ajax síðasta sumar. Hann hefur misst af níu síðustu leikjum vegna meiðsla. Fyrir þau meiðsli hafði hann einungis misst af deildarleikjum beint í kjölfarið á heimsmeistaratitli Argentínu.


Athugasemdir
banner
banner