þri 23. maí 2023 15:27
Elvar Geir Magnússon
Stúkan við nýjan heimavöll KA á að vera tilbúin fyrir tímabilið 2029
Stúkan sem á að vera tilbúin í lok árs 2028
Stúkan sem á að vera tilbúin í lok árs 2028
Mynd: KA
KA stefnir á að keppa á vellinum tímabilið 2025.
KA stefnir á að keppa á vellinum tímabilið 2025.
Mynd: KA
KA hefur gert samning við Akureyrarbæ um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins. Samningurinn er framhald af viljayfirlýsingu sem var undirrituð í desember 2021.

Útbúinn verður nýr upphitaður aðalkeppnisvöllur með gervigrasi og 800 LUX flóðlýsingu sem stenst kröfur leyfiskerfis UEFA. Við völlinn verður yfirbyggð stúka fyrir allt að 1.000 manns í sæti.

Í stúkumannvirkinu verða áhaldageymsla, búningsklefar, fréttamannaaðstaða og fleira.

Verklok fyrir keppnisvöllinn eru áætluð í júlí á þessu ári en fyrir félagsaðstöðu og stúku í árslok 2028. Frágangur á lóð félagssvæðisins teygir sig til ársins 2030.

Áætlaður kostnaður við keppnisvöllinn, stúkumannvirkið og félags- og búningsaðstöðuna er rúmlega 2,6 milljarðar á núverandi verðlagi en nánar má lesa um málið á akureyri.is.

Stefna á að keppa á nýja vellinum í efstu deild sumarið 2025
Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA segist vera gríðarlega sáttur við nýjan uppbyggingarsamning.

„Við stefnum að því að keppa í efstu deild sumarið 2025 á nýjum velli og vonandi gengur það eftir. Við gefum okkur þó góðan tíma í að klára alla framkvæmdina með fullbúnu félagsheimili og fjölgun bílastæða hér á svæðinu. Sjö nýjir búningsklefar, frábær aðstaða fyrir Júdó og lyftingadeild ásamt byltingu í allri félagsaðstöðu fyrir félagið," segir Sævar.

„Okkur tekst svo vonandi með okkar framlagi að flýta eitthvað fyrir framkvæmdum og ekkert launungarmál að við horfum í það að vera hér með full tilbúið frábært mannvirki á 100 ára afmæli félagsins 2028. Við erum gríðarlega þakklát fyrir þennan samning og ánægð með samstarfið við Akureyrarbæ og hlökkum til að sjá þetta flotta mannvirki rísa hér á næstu árum. Framkvæmdir eru komnar á fullt og stefnum við að því að völlurinn verði tilbúinn núna í júlí þegar N1-mótið fer fram."
Athugasemdir
banner
banner
banner