Vinstri bakvörðurinn öflugi Carlos Augusto hefur hafnað tilraunum ítalska knattspyrnusambandsins til að fá hann til að spila fyrir ítalska landsliðið.
Augusto er sókndjarfur bakvörður frá Brasilíu sem er einnig gjaldgengur fyrir ítalska landsliðið.
Hann er 24 ára gamall og lék fyrir Corinthians áður en hann var fenginn yfir til Monza. Hann fór upp í Serie A með Monza og var einn af betri bakvörðum efstu deildar ítalska boltans á síðustu leiktíð.
Inter keypti hann fyrir 15 milljónir evra í sumar og er hann í harðri baráttu við hinn feykiöfluga Federico Dimarco um byrjunarliðssæti sem vinstri vængbakvörður.
Augusto dreymir um að spila fyrir Brasilíu og ætlar að bíða eftir landsliðskallinu þaðan frekar en að spila fyrir Ítalíu. Hann á sex leiki að baki fyrir U20 landslið Brasilíu.