Liverpool og Barcelona hafa áhuga á Alvarez - Bilic gæti tekið við West Ham - Man Utd ætlar að fá inn markvörð næsta sumar
   þri 23. september 2025 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Maresca: Strákarnir öðluðust mikilvæga reynslu
Mynd: EPA
Enzo Maresca þjálfari Chelsea svaraði spurningum eftir nauman sigur gegn Lincoln City í enska deildabikarnum í kvöld.

Lincoln, sem leikur í League One deildinni, var sterkara liðið í fyrri hálfleik og leiddi 1-0 í leikhlé. Munurinn hefði getað verið meiri.

„Við breyttum taktíska skipulaginu í hálfleik og náðum að snúa þessu strax við. Ég verð að hrósa strákunum fyrir að vinna erfiðan útileik. Þeir notuðust mikið við langa bolta í teiginn og föst leikatriði. Þeir vörðust frábærlega og við erum ánægðir með að hafa sigrað," sagði Maresca.

„Ég spurði fyrir leikinn hversu margir hérna hafa spilað gegn liði úr League One? Ég útskýrði fyrir þeim að þetta snýst ekki um gæðin í liðinu, heldur um þráina og vonina. Fyrir þá snýst þetta um að vera grimmir og vinna öll einvígi og alla seinni bolta. Þetta eru mikilvægir leikir fyrir strákana að spila gegn svona liðum. Hálfur hópurinn minn hafði aldrei áður spilað gegn liði úr þessari deild. Þeir öðluðust mikilvæga reynslu í kvöld."

Hinn efnilegi Tyrique George leiddi endurkomu Chelsea í upphafi síðari hálfleiks með glæsilegu marki og stoðsendingu.

„Við gáfum Tyrique George einhver tækifæri í fyrra og á þessu ári er hann að fá enn fleiri tækifæri. Hann kom inn gegn Manchester United og Fulham og er að hjálpa okkur. Við þurfum á leikmönnum eins og honum að halda. Síðasta vika var erfið fyrir okkur en við höldum áfram á okkar braut."
Athugasemdir