Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   mán 23. nóvember 2020 11:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Íslensk knattspyrna á farsóttartímum
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Davíð O. Arnar og Runólfur Pálsson.
Davíð O. Arnar og Runólfur Pálsson.
Mynd: Samsett
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú þegar atlagan við faraldur kórónuveirunnar hér á landi hefur staðið yfir í 9 mánuði og þriðja bylgjan er á niðurleið er vert að staldra við og skoða hvernig til hefur tekist með viðbragðsaðgerðir. Óhætt er að segja að aðgerðir stjórnvalda til að kveða niður faraldurinn hafi reynst árangursríkar en strangar takmarkanir á eðlilegri virkni samfélagsins langtímum saman hafa að sama skapi haft alvarlegar afleiðingar, m.a. fyrir ferðaþjónustu, skóla og íþróttastarf. Knattspyrnan hefur ekki farið varhluta af því þar sem ekki reyndist unnt að ljúka Íslandsmótinu í ár þrátt fyrir mikla vinnu KSÍ við að útfæra sóttvarnaráðstafanir í tengslum við æfingar og kappleiki. Athygli hefur vakið að í flestum öðrum löndum hefur keppni í knattspyrnu verið fram haldið eftir tímabundna stöðvun síðastliðið vor þó að kórónuveirufaraldurinn hafi verið á miklu flugi. Stafar það af undanþágu sem þessar þjóðir hafa veitt frá almennum sóttvarnareglum og samfélagstakmörkunum. Fyrir þessu eru ástæður sem vert er að skoða nánar.

Þegar horft er til annarra landa virðist reynslan af knattspyrnukeppni á undanförnum mánuðum hafa verið góð því afar lítið hefur verið um hópsýkingar þótt einstakir leikmenn hafi smitast úti í samfélaginu. Sama var uppi á teningnum hér á landi þann tíma sem knattspyrnuiðkun var heimiluð. Líklega má þakka þennan árangur vel útfærðum sóttvarnaráðstöfunum knattspyrnuforystunnar sem yfirleitt hafa verið þróaðar í samvinnu við sóttvarna- og heilbrigðisyfirvöld. Þá setti Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) saman umfangsmikið sóttvarnaregluverk fljótlega eftir að faraldurinn hóf innreið sína sem landssamtök hafa haft að leiðarljósi. Auk þess hefur tíðum skimunarprófum sums staðar verið beitt en ekki hefur verið sýnt fram á hve miklu þau bæta við hefðbundnar sóttvarnaaðgerðir. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að eftir að heimilað var að hefja æfingar og keppni í knattspyrnu á ný í Þýskalandi síðastliðið vor fylgdi ekki aukin hætta á sýkingum af völdum kórónuveirunnar miðað við stöðu faraldursins í landinu á þeim tíma. Raunar kemur þessi niðurstaða ekki á óvart því fyrri rannsóknir hafa bent til að smithætta samfara knattspyrnuiðkun sé lítil. Engu að síður er mikilvægt að gætt sé ýtrustu varúðar gagnvart veirunni þar sem vitað er að hún er mjög smitandi og því hætta á víðtæku smiti hvar sem fólk kemur saman í hópum. En við vitum líka að hægt er að sporna gegn dreifingu smits með vel útfærðum sóttvarnaráðstöfunum. Það hníga því flest rök að því að óhætt sé að heimila knattspyrnu, að minnsta kosti í afreksflokki, þrátt fyrir að COVID-19-faraldurinn geisi í samfélaginu. Hvort leyfa skuli áhorfendur og þá hve marga verður að ráðast af stöðu faraldursins hverju sinni.

Við vitum ekki hvernig kórónuveirufaraldurinn mun þróast árið 2021. Við getum ekki treyst alfarið á að tilkoma bóluefnis muni koma lífinu hér í eðlilegt horf fyrr en í fyrsta lagi á seinni hluta ársins 2021. Ljóst er að langvarandi bann við iðkun knattspyrnu getur leitt til þess að knattspyrnufólk okkar dragist aftur úr leikmönnum annarra þjóða. Þá er hætt við að fjárhagur og innviðir félaga bíði alvarlegt tjón sem langan tíma mun taka að lagfæra. Það má því færa rök fyrir að rík ástæða sé til að veita undanþágu til knattspyrnuiðkunar í ljósi þess að hættan á dreifingu smits er óveruleg þegar vel er hugað að sóttvörnum. Brýnt er að þetta mikilvæga mál verði tekið til vandaðrar umfjöllunar af hálfu sóttvarna- og heilbrigðisyfirvalda. Sama á auðvitað við um aðrar keppnisíþróttir en smithættu sem þeim fylgir þarf meta í hverju tilviki. Í öllu falli er nauðsynlegt að hyggja sem fyrst að framkvæmd næsta keppnistímabils í knattspyrnunni sem mun án efa fara fram í skugga kórónuveirufaraldursins.

Runólfur Pálsson
Davíð O. Arnar
Athugasemdir
banner
banner