Nasser Al-Khelaifi, forseti Paris Saint-Germain, svaraði spurningum fréttamanna eftir að Kylian Mbappe skrifaði undir þriggja ára samning við félagið á dögunum.
Forsetinn hélt því fram að Mbappe hafi ekki valið PSG framyfir Real Madrid vegna peninga heldur vegna þess að hann hefur meiri trú á verkefninu sem er í gangi í París.
„Peningurinn er ekki það sem skiptir Kylian Mbappe mestu máli. Það er félag á Spáni sem getur borgað honum talsvert hærri laun heldur en við," sagði Al-Khelaifi og hélt svo áfram. „Helsta ástæðan fyrir því að Mbappe skrifaði undir eru framtíðaráform félagsins."
Al-Khelaifi skaut svo á Javier Tebas, forseta efstu deildanna á Spáni, sem er sagður ætla fara í mál við PSG eftir að Mbappe skrifaði undir.
„Kannski óttast Tebas að Ligue 1 verði betri deild en La Liga... La Liga er ekki sama deild í dag og hún var fyrir þremur eða fjórum árum.
„Eina sem skiptir mig máli er að við erum með Mbappe. Allt annað er aukaatriði."
Forsetinn var einnig spurður hvort PSG ætli sér stóra hluti á leikmannamarkaðinum í sumar eftir að Mbappe skrifaði undir.
„Ég lofaði að við myndum kaupa nýja leikmenn til félagsins þó Mbappe myndi skrifa undir. Það hefur ekki breyst."
Hinn 23 ára gamli Mbappe skoraði 39 mörk í 46 leikjum með PSG á leiktíðinni.