Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
banner
   mán 24. ágúst 2015 07:00
Alexander Freyr Tamimi
Jón Vilhelm: Erum klárir í að selja okkur dýrt
Jón Vilhelm og félagar mæta Fjölni í kvöld.
Jón Vilhelm og félagar mæta Fjölni í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
ÍA mætir Fjölni klukkan 18:00 í kvöld í Pepsi-deildinni á Akranesi, en Skagamenn hafa svo sannarlega að miklu að keppa.

Fjölnir á enn örlitla möguleika á því að næla sér í Evrópusæti, en ÍA er hins vegar að berjast við botninn og geta þeir gulklæddu styrkt stöðu sína með sigri.

Jón Vilhelm Ákason hefur verið lykilmaður í liði Skagamanna á tímabilinu og hann er bjartsýnn fyrir leikinn gegn Fjölni.

„Ég met möguleika okkar mjög góða, við erum á heimavelli og höfum verið að spila heilt yfir vel þar. Fjölnir eru með hörku lið og eru búnir að vera á fínu rönni, en við erum tilbúnir í slagsmála leik," segir Jón Vilhelm við Fótbolta.net.

Skagamenn hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum, gegn Breiðabliki og FH, en Jón Vilhelm segir að þau úrslit hafi ekki haft slæm áhrif á sjálfstraust liðsins.

„Við mætum fullir sjálfstrausts í þennan leik þrátt fyrir tap í síðustu tveimur leikjum. Við áttum tvo slaka fyrri hálfleiki í þessum tapleikjum en við komum til baka og vorum óheppnir að ná ekki að stela stigum í þessum leikjum."

Fjölnismenn hafa unnið bæði einvígi liðanna til þessa, 2-0 í deildinni og 3-0 í bikar.

„Að sjálfsögðu viljum við bæta upp fyrir síðustu tvær frammistöður á móti Fjölni, þar sem við spiluðum virkilega illa og áttum lítið skilið úr þeim leikjum. Sigur yrði mjög mikilvægur til þess að spyrna okkur aðeins frá þessum liðum sem eru í kringum okkur," segir Jón Vilhelm. Hann er sannfærður um að ÍA haldi sæti sínu í Pepsi-deildinni.

„Við höfum fulla trú á að við höldum okkar sæti í deildinni og erum klárir í að selja okkur dýrt í þessum sex leikjum sem eftir eru."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner