Ange Postecoglou var stoltur af sínum mönnum eftir 2-2 jafntefli Tottenham gegn Arsenal á Emirates leikvanginum í dag.
Arsenal tók forystuna í tvígang en Tottenham spilaði flottan leik og jafnaði með mörkum frá Son Heung-min í sitthvorum hálfleiknum.
„Við spiluðum gegn topp andstæðingum en strákarnir sýndu mikið hugrekki og spiluðu sinn leik allan tímann. Við vorum aggressívir og mér fannst við vera óheppnir í báðum mörkunum sem við fengum á okkur, sem voru sjálfsmark og vítaspyrna. Við sýndum frábæran karakter með að koma til baka í tvígang," sagði Postecoglou að leikslokum.
Bukayo Saka skoraði annað mark Arsenal úr vítaspyrnu til að taka forystuna í síðari hálfleik, en Postecoglou segist ekki skilja hvernig reglan um hendi innan vítateigs virkar. Cristian Romero gat lítið gert í því þegar hann fékk boltann í höndina af stuttu færi, en boltinn virtist á leiðinni á markið. Sjáðu atvikið.
„Ég skil ekki reglurnar varðandi hendi innan vítateigs í dag. Mér líður eins og þetta sé orðið þannig að ef boltinn fer í höndina á þér þá er alltaf vítaspyrna - sama þó skotið sé af meters færi."
Tottenham deilir fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með Arsenal þar sem liðin eiga 14 stig eftir 6 umferðir.
„Þetta eru frábær úrslit gegn gríðarlega sterkum andstæðingum. Ég sé miklar framfarir hjá okkur og við eigum enn eftir að vaxa mikið. Þetta er frábær byrjun hjá okkur og ég er yfir mig hrifinn af karakternum sem er í þessum leikmannahópi. Strákarnir gefast aldrei upp."
Tottenham á heimaleik við Liverpool um næstu helgi og ríkir mikil eftirvænting fyrir þá viðureign.