Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
banner
   þri 24. október 2023 15:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bauðst til að taka 6. flokk en fékk svo spennandi símtal úr Vogum
Gunnar Már Guðmundsson, nýráðinn þjálfari Þróttar í Vogum.
Gunnar Már Guðmundsson, nýráðinn þjálfari Þróttar í Vogum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Þrótti Vogum á síðasta tímabili.
Úr leik hjá Þrótti Vogum á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar er spenntur fyrir því að hefja nýjan kafla á þjálfaraferlinum.
Gunnar er spenntur fyrir því að hefja nýjan kafla á þjálfaraferlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Már Guðmundsson, oft kallaður Herra Fjölnir, var á dögunum ráðinn nýr þjálfari Þróttar í Vogum.

Gunnar Már gerði tveggja ára samning við Þrótt en hann var síðast aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fjölni 2016 og 2017. Eftir það tók hann við starfi sem yfirþjálfari yngriflokka hjá Fjölni, auk þess að hafa verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla þar til hann lét af störfum haustið 2021.

Hann spilaði fyrir Fjölni, FH, ÍBV og Þór í efstu deild karla á tíma sínum sem leikmaður og lék einn A-landsleik, auk fimm bikarúrslitaleikja. Á tíma sínum hjá Fjölni afrekaði Gunnar það að spila í fjórum efstu deildum íslenska boltans.

„Þetta kemur þannig til að það spyrst einhvern veginn út að ég sé að spá í því að fara að þjálfa aftur. Andri Steinn (Birgisson), sem kom inn í þjálfarateymið hjá Þrótti í fyrra, heyrði í mér og spurði hvort ég hefði áhuga á þessu. Út frá því fór ég í viðræður við Martein og félaga í Þrótti," segir Gunnar Már í samtali við Fótbolta.net en hann var spenntur þegar hann heyrði fyrst af áhugi frá Þrótti.

„Já, í rauninni. Ég var í viðræðum um að taka við 2. flokki hjá tveimur öðrum félögum. Mér fannst spennandi að fara í þetta verkefni því þetta er í fyrsta lagi meistaraflokkur og svo í öðru lagi er bæjarfélag á bak við þetta og það er hugur í mannskapnum þarna. Þetta er spennandi tækifæri að fá að taka sitt fyrsta skref í þjálfun meistaraflokks karla."

Byrjar aftur að þjálfa
Gunnar tók sér frí frá þjálfun í fyrra og í ár en hann byrjar núna aftur í Vogunum.

„Ég var ekki að þjálfa í fyrra, en árin þar á undan var ég búinn að vera að þjálfa yngri flokka eftir að ég hætti sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki Fjölnis. Þá var ég að þjálfa 2. flokk, 4. flokk og var yfirþjálfari yngri flokka í sex eða sjö ár," segir Gunnar sem hefur bara þjálfað hjá Fjölni til þessa.

„Mér bauðst í fyrra að taka við meistaraflokkum þannig að þetta kom kannski ekki á óvart. Ég bjóst við því að það kæmu einhver símtöl einhvern tímann. Ég var eiginlega búinn að gefa það út að ég myndi ekki þjálfa í ár en mig langaði svo að fara aftur að þjálfa."

„Ég bauðst til að taka 6. flokkinn hjá Fjölni en það var búið að manna hann. Þá vildi ég bara fara í einhvern kvöldflokk. Þá kom þetta símtal og mér finnst þetta spennandi tækifæri. Ég held að þetta sé skemmtilegt félag að vinna með, þetta er flott svæði og þetta er stutt frá bænum. Þetta verður bara ævintýri."

„Ég hringdi í forvera mína til að máta mig við starfið. Ég fór í smá rannsóknarvinnu og það báru allir félaginu góða sögu. Ég er að vonast til að maður geti gert tilkall í að fara upp. Það er það sem við horfum í."

En af hverju ákvað Gunnar að taka sér frí frá þjálfun?

„Ég var í fullri vinnu, kennslu og með 4. flokk og 2. flokk. Þetta var svolítið yfirþyrmandi. Það var fínt að anda smá og koma svo af fullum krafti inn aftur. Það er tilhlökkun að byrja aftur," segir Gunnar.

Stefna upp
Það er metnaðarfullt fólk sem stendur á bak við Þrótt en félagið stefnir eflaust á að komast aftur upp í Lengjudeildina eftir að hafa spilað þar í fyrra.

„Liðið og hópurinn hefur breyst mjög mikið frá því að liðið var uppi í Lengjudeildinni. Núna er að móta lið á þeim grunni sem er fyrir. Það er sterkur grunnur, þetta er öflugt lið. Það verður spennandi að sjá hverjir eru tilbúnir að taka slaginn með okkur og svo framvegis," segir Gunnar.

„Andri Steinn verður ekki aðstoðarþjálfari, hann verður okkur vonandi innan handar. Það er mikið að gera hjá honum. Hreinn Ingi (Örnólfsson) verður spilandi aðstoðarþjálfari. Hann var kominn inn í þetta í fyrra og er með flottar hugmyndir."

„Ég er mjög spenntur," sagði Gunnar Már, nýráðinn þjálfari Þróttar, að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner