Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 24. nóvember 2021 09:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
KSÍ neitar að tjá sig frekar - Vanda og Arnar svara ekki í símann
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær var tilkynnt að Eiður Smári Guðjohnsen væri hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari. Í tilkynningu KSÍ kemur fram að ákvörðunin hafi verið sameiginleg.

Eins og fram kom í morgun bauð KSÍ leikmönnum, þjálfurum og starfsliði í glas eftir lokaleikinn í undankeppni HM, sunnudaginn 14. nóvember.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var Eiður enn í annarlegu ástandi þegar hópurinn hittist í morgunmat á mánudagsmorgun. Eiður var á gulu spjaldi eftir að myndband af honum komst í dreifingu þar sem hann var ölvaður að kasta af sér vatni á Ingólfstorgi.

Fótbolti.net heyrði í Ásgrími Helga Einarssyni, formanni landsliðsnefndar. Ásgrímur fór með í síðustu landsliðsferð. Hann var spurður hvort það hefði verið að frumkvæði stjórnar KSÍ að Eiður hefði verið látinn fara.

„Þetta er sameiginleg ákvörðun," sagði Ásgrímur.

Ásgrímur vísaði svo í fréttatilkynninguna þegar hann var spurður hvers vegna ákvörðunin var tekin. Ásgrímur vildi ekki tjá sig frekar um málið, ekki heldur um þær fréttir að ónafngreindur leikmaður landsliðsins hafi verið í annarlegu ástandi á leiðinni heim.

Vanda og Arnar svöruðu ekki
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, svaraði ekki símtali frá Fótbolta.net nú í morgun. Vanda var með í landsliðsferðinni og neitaði í samtali við DV að ræða um starfsmannamál.

Þá var einnig reynt að hringja í landsliðsþjálfarann Arnar Þór Viðarsson en hann svaraði ekki heldur. Arnar er einnig yfirmaður fótboltamála hjá sambandinu og hefur ekki svarað fjölmiðlum síðustu daga.
Athugasemdir
banner
banner
banner