Atletico vill fá Romero - United býður í Branthwaite ef Maguire fer - Real hefur áhuga á Saliba
   þri 25. mars 2025 20:20
Ívan Guðjón Baldursson
Kjarnafæðismótið: Tíu Þórsarar höfðu betur gegn KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA 0 - 0 Þór
Rautt spjald: Ibrahima Balde, Þór ('46)
5-6 eftir vítaspyrnukeppni

Lestu um leikinn: KA 5 -  6 Þór

KA og Þór áttust við eins og svo oft áður í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins.

Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur og einkenndist af miklum meiðslavandræðum hjá KA-mönnum, sem neyddust til að gera þrjár skiptingar í fyrri hálfleik. Jóan Símun Edmundsson, Steinþór Már Auðunsson (Stubbur) og Valdimar Logi Sævarsson fóru af velli meiddir í fyrri hálfleiknum.

Eftir átta mínútna uppbótartíma hófst seinni hálfleikurinn með látum, þar sem Ibrahima Balde fékk að líta beint rautt spjald fyrir glórulausa tveggja fóta tæklingu strax í upphafi.

Tíu Þórsarar spiluðu flottan seinni hálfleik og gáfu fá færi á sér. Þeir vörðust vel og áttu skot í stöng eftir snarpa skyndisókn á 66. mínútu, þar sem Sigfús Fannar Gunnarsson skaut í stöngina úr þröngu færi.

KA gerði sig líklegra á lokamínútunum þar sem VIðar Örn Kjartansson fékk tvö færi sem tókst ekki að nýta. Boltinn rataði ekki í netið og var flautað til vítaspyrnukeppni.

Leikmenn skoruðu úr fyrstu þremur spyrnum hvors liðs áður en Juan Hermida og Ingimar Torbjörnsson Stöle klúðruðu sitthvorri spyrnunni.

Liðin skiptust á að skora úr næstu vítaspyrnum þar til staðan var orðin 6-5 fyrir Þór. Hans Viktor Guðmundsson steig þá á punktinn fyrir KA en Aron Birkir Stefánsson varði spyrnuna til að tryggja sigur.
Athugasemdir
banner