Man Utd vill Kane - Arsenal hefur áhuga á Yildiz - Villa vill kaupa Sancho
   fim 25. september 2025 18:39
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Evrópudeildin: Mark Sævars Atla dugði ekki til - Giroud hetjan
Sævar Atli skoraði í fyrsta leiknum í Evrópudeildinni
Sævar Atli skoraði í fyrsta leiknum í Evrópudeildinni
Mynd: Brann
Það var Íslendingaslagur í Evrópudeildinni í kvöld þegar Lille fékk Brann í heimsókn.

Hákon Arnar Haraldsson bar fyrirliðabandið hjá Lille. Sævar Atli Magnússon var í byrjunarliði Brann en Eggert Aron Guðmundsson kom inn á sem varamaður eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Freyr Alexandersson er þjálfari Brann.

Brann var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fékk góð tækifæri til að komast yfir er staðan var markalaus í hálfleik.

Hamza Igamane kom Lille yfir snemma í seinni hálfleik. Forystan stóð ekki lengi yfir því Sævar Atli skoraði með góðu skoti úr teignum í fjærhornið, stöngin inn.

Olivier Giroud kom inn á sem varamaður stuttu eftir jöfnunarmarkið frá Sævari. Hann kom Lille yfir þegar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma þegar hann skoraði með skalla.

Brann fékk tvö tækifæri í blálokin en tókst ekki að skora og sigur Lille því staðreynd. Rúmenska liðið FCSB vann góðan sigur gegn hollenska liðinu Go Ahead Eagles.

Go Ahead Eagles 0 - 1 Steaua
0-1 David Miculescu ('13 )

Lille 2 - 1 SK Brann
1-0 Hamza Igamane ('54 )
1-1 Saevar Magnusson ('60 )
2-1 Olivier Giroud ('80 )
Athugasemdir