
„Geðveikt stig, sterkt að lenda undir gegn Frakklandi og að ná að komast til baka. Svekkjandi að ná ekki að spila meira, mér fannst ég vera að gera vel þegar ég var inn á. Mér fannst ég ná að stríða þeim mikið, vinna mikið af boltum og djöflast í þeim. Svekkjandi að ná ekki að klára leikinn en það skiptir ekki máli því við fengum stig,“ sagði Sævar Atli Magnússon eftir 2-2 jafntefli gegn Frökkum á Laugardalsvelli fyrr í kvöld. Sævar fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 2 Frakkland
„Ég er að reyna að bjarga einhverri sendingu og ég stíg asnalega í fótinn og fæ slink í utanvert hnéð. Ég er búinn að vera í smá vandræðum með hnéð í tvær, þrjár vikur. Hélt að þetta væri orðið gott en nú fæ ég einhvern slink, vonandi ekkert alvarlegt. Ég tékka betur á þessu þegar ég fer út til Brann.“
Hvernig var að horfa á seinni hálfleikinn frá bekknum?
„Ógeðslega erfitt, það er alltaf erfitt að fara útaf. Þegar þeir komust í 2-1, hugsaði maður: Ég trúi þessu ekki. En við jöfnum strax og það var geðveikt þá fengum við aftur meðbyrinn, síðan gerist voða lítið síðustu mínúturnar. Við náðum að drepa leikinn sem var mjög vel gert hjá okkur.“
Til þess að eiga möguleika á að komast á HM þurfum við svona stórar frammistöður líkt og í kvöld, ekki satt?
„Hundrað prósent, nú erum við skiljanlega mikið búnir að ræða þennan Úkraínuleik. Við erum að fara í úrslitaleik gegn Úkraínu í næsta glugga og það er mikilvægt að fara með sjálfstraust í þann leik. Mér finnst með hverjum glugga við verða betri og ég hef trú á því að við verðum enn betri í nóvember.“
Ísland þarf að vinna Aserbaídsjan eða treysta á að Úkraína vinni ekki Frakkland í næsta glugga til þess að eiga möguleika á úrslitaleik gegn Úkraínu.