
„Ég er mjög sáttur, stoltur af liðinu, teyminu og öllum í kringum liðið. Að ná í stig gegn Frakklandi er ekki auðvelt. En við gátum líka gert það úti í Frakklandi. Þetta var mjög fín frammistaða,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson eftir 2-2 jafntefli gegn Frökkum fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 2 Frakkland
„Það skiptir engu máli hvernig hitt liðið er, við fórum bara inn í þetta og ætluðum að gera okkar hluti vel. Við gerðum það, skoruðum tvö flott mörk, sérstaklega seinna markið.“
Ísland lenti 1-2 undir um miðbik síðari hálfleiks en kom strax til baka og jafnaði metin.
„Það er alvöru karakter að komast strax til baka, við höfðum alveg getað vorkennt sjálfum okkur og haldið að þetta væri búið, en við komum til baka og það sýnir alvöru karaktermerki.“
Viðtalið við Ísak má nálgast í heild sinni í spilaranum hér að ofan.