Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United á enga möguleika á því að fá Jude Bellingham frá Borussia Dortmund á næsta ári en þetta segir þýski blaðamaðurinn Florian Plettenberg.
Bellingham verður heitasti bitinn á markaðnum á næsta ári en hann hefur slegið í gegn með Dortmund frá því hann kom frá Birmingham City fyrir tveimur árum.
Hann þykir með allra bestu miðjumönnum heims í dag og eru öll stærstu félög Evrópu með augun á honum.
Liverpool, Manchester-liðin og Real Madrid hafa verið sögð í baráttunni um leikmanninn en Plettenberg segir nú að Manchester United eigi enga möguleika á að fá hann.
Aðeins þrjú lið séu eftir í baráttunni en eins og staðan er núna virðist Liverpool líklegasti áfangastaðurinn. Verðmiðinn á Bellingham er í kringum 130 milljónir punda.
Bellingham er efstur á lista hjá Liverpool sem ætlar að bæta við sig að minnsta kosti tveimur miðjumönnum á næsta ári.
Athugasemdir