mán 14. nóvember 2022 10:35
Magnús Már Einarsson
6 dagar í HM - HM í Frakklandi 1998
Beckham var skúrkurinn
Frakkar unnu á heimavelli.
Frakkar unnu á heimavelli.
Mynd: Getty Images
Beckham var rekinn út af gegn Argentínu.
Beckham var rekinn út af gegn Argentínu.
Mynd: Getty Images
Hollendingar fagna ótrúlegu sigurmarki Dennis Bergkamp í 8-liða úrslitunum.
Hollendingar fagna ótrúlegu sigurmarki Dennis Bergkamp í 8-liða úrslitunum.
Mynd: Getty Images
Davor Suker hjálpaði Króötum að ná bronsinu.
Davor Suker hjálpaði Króötum að ná bronsinu.
Mynd: Getty Images
Ronaldo var bestur á mótinu en náði sér ekki á strik í úrslitaleiknum.
Ronaldo var bestur á mótinu en náði sér ekki á strik í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Zidane skoraði tvö í úrslitaleiknum og Petit eitt.
Zidane skoraði tvö í úrslitaleiknum og Petit eitt.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.



HM í Frakklandi
Frakkland og Marokkó sóttu bæði um að halda HM 1998. Frakkar urðu fyrir valinu og héldu því mótið í annað skipti í sögunni. Í fyrsta skipti tóku 32 þjóðir þátt í stað 24 áður. Liðunum var skipt í átta riðla og tvö lið fóru áfram í 16-liða úrslit úr hverjum riðli. Leikið var á tíu leikvöngum víðsvegar um Frakkland en úrslitaleikurinn sjálfur fór fram á Stade de France sem var byggður sérstaklega fyrir mótið.

Beckham sá rautt
Hinn 18 ára gamli Michael Owen skoraði frábært mark í leik Englands og Argentínu í 16-liða úrslitunum en það féll algjörlega í skuggann á rauðu spjaldi sem David Beckham fékk í leiknum. Diego Simeone braut á Beckham sem lá eftir. Beckham sparkaði í kjölfarið í Simeone og danski dómarinn Kim Milton Nielsen rak hann af velli. Englendingar töpuðu leiknum í kjölfarið í vítaspyrnukeppni og enskir fjölmiðlar kenndu Beckham um ófarirnar. Beckham fékk einnig óblíðar móttökur hjá stuðningsmönnum enska landsiðsins í nokkra mánuði eftir keppnina og varð óvinsælasti maður þjóðarinnar. Beckham náði hins vegar að halda haus og vinna þrennuna með Manchester United ári síðar og vann svo þjóðina á sitt band.

Smelltu hér til að sjá myndband af rauða spjaldinu

Metfjöldi rauðra spjalda
Dómarar fengu þau skilaboð fyrir HM í Frakklandi að taka hart á aftan í tæklingum og vísa mönnum af velli ef þeir gerðust uppvísir að slíku. Alls fóru 22 rauð spjöld á loft á mótinu sem er met. Rigobert Song, varnarmaður Kamerún, varð fyrsti leikmaðurinn til að fá tvö rauð spjöld á HM en hann fékk einnig rauða spjaldið á HM 1994.

704 leikmenn
Eftir að liðum á HM var fjölgað úr 24 í 32 voru alls 704 leikmenn í leikmannahópum þjóðanna á HM. Hver þjóð var með 22 leikmenn innan sinna raða en Barcelona átti flesta leikmenn, 13 talsins. Samuel Eto´o leikmaður Kamerún var yngsti leikmaður mótsins, 17 ára og þriggja mánaða á meðan Jim Leighton hjá Skotum var sá elsti, 39 ára og 11 mánaða.

Ótrúlegt sigurmark Bergkamp
Hollendingar komust í undanúrslit á mótinu í Frakklandi og þeir gátu þakkað Dennis Bergkamp fyrir þann árangur. Holland mætti Argentínu í 8-liða úrslitunum og á 89. mínútu leiksins var staðan 1-1 og lítið annað í spilunum en framlenging. Frank De Boer átti þá langan sendingu á Bergkamp sem lék frábærlega á Roberto Ayala og skoraði með utanfótar skoti upp í bláhornið. Magnað mark hjá Bergkamp en það gerði hann að markahæsta leikmanni Hollendinga frá upphafi.

Smelltu hér til að sjá myndband af marki Bergkamp

Suker dró vagninn hjá Króötum
Króatar kepptu í fyrsta skipti á HM árið 1998 og stimpluðu sig heldur betur inn með því að ná þriðja sætinu á mótinu. Davor Suker var markakóngur og hann sá um að draga vagninn. Margir aðrir frábærir leikmenn voru í króatíska liðinu á þessum tíma og má þar nefna Robert Prosinecki, Slaven Bilic og Zvonomir Boban.

Úrslitaleikur: Frakkland 3 - 0 Brasilía
Frakkar komust í úrslitaleikinn með 2-1 sigri á Króötum þar sem varnarmaðurinn Lilian Thuram skoraði óvænt bæði mörkin eftir að Suker hafði komið Króötum yfir. Brasilíumenn fóru aftur á móti í úrslit með því að vinna Hollendinga 5-3 eftir vítaspyrnukeppni þar sem að Philip Cocu og Ronald de Boer brenndu af. Ronaldo hafði komið Brössum yfir í leiknum en Patrick Kluivert náði að knýja fram framlengingu með jöfnunarmarki á 87. mínútu.

Allt tal fyrir úrslitaleikinn snérist um Ronaldo framherja Brasilíumanna sem var með flesnsu. Ronaldo spilaði leikinn á endanum en náði sér alls ekki á strik frekar en félagar hans í brasilíska liðinu.

Zinedine Zidane var maður kvöldsins en hann skoraði tvö mörk með skalla eftir hornspyrnu. Hann átti síðar eftir að vera valinn leikmaður ársins í heiminum árið 1998. Frakkar misstu Marcel Desailly af velli með rauða spjaldið í síðari hálfleik en það kom ekki að sök því Emmanuel Petit innsiglaði 3-0 sigur liðsins í lokin eftir sendingu frá Patrick Vieira félaga sínum hjá Arsenal.

Nokkrum dögum eftir úrslitaleikinn ákvað Aimé Jacquet síðan að hætta sem landsliðsþjálfari. Roger Lemerre tók við af honum og undir hans stjórn gerðu Frakkar 1-1 jafntefli við Íslendinga í fyrsta leiknum í undankeppni EM í september 1998.

Leikmaðurinn: Ronaldo
Þrátt fyrir að hafa ekki náð sér á strik í úrslitaleiknum þá var Ronaldo valinn besti leikmaður mótsins. Ronaldo var á þessum tíma 22 ára gamall og hafði verið valinn leikmaður ársins í heiminum bæði árið 1996 og 1997. Ronaldo skoraði fjögur mörk á mótinu og átti stóran þátt í að Brasilíumenn komust í úrslitaleikinn annað mótið í röð. Stærri afrek áttu hins vegar eftir að bíða hans á HM 2002.

Markahrókurinn: Davor Suker
Suker fór á kostum í liði Króatíu á mótinu og skoraði sex mörk. Hann tryggði sér markakóngstitilinn með því að skora sigurmarkið gegn Hollendingum í leik um 3. sætið. Um leið endaði hann með marki meira en bæði Gabriel Batistuta og Christian Vieri. Suker er í dag formaður knattspyrnusambands Króatíu en hann kíkti til Íslands í síðasta mánuði til að sjá sína menn spila í umspilinu gegn Íslandi.

Leikvangurinn: Stade de France
Stade de France var byggður sérstaklega fyrir HM 1998. Leikvangurinn tekur 81,338 mannst í sæti og er sá sjötti stærsti í Evrópu. Opnunarleikurinn á HM 1998 fór fram á Stade de France sem og sjálfur úrslitaleikurinn. Í dag er leikvangurinn notaður sem heimavöllur Frakka í bæði fótbolta og rúgbý.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990
HM í Bandaríkjunum 1994
HM í Frakklandi 1998

Markaregn frá HM 1998:

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner