Ítalska félagið Napoli hefur staðfest áhuga sinn á argentínska kantmanninum Alejandro Garnacho en félagið segist þó ekki ætla að greiða óraunhæft verð til að landa honum.
Garnacho hefur verið orðaður við Napoli síðustu vikur og þá sérstaklega eftir að félagið seldi georgíska landsliðsmanninn Khvicha Kvaratskhelia til Paris Saint-Germain.
Félagið vill finna eftirmann hans sem fyrst og hefur Napoli nú staðfest að Garnacho og þýski landsliðsmaðurinn Karim Adeyemi séu á blaði.
„Karim Adeyemi og Alejandro Garnacho eru tvö nöfn sem vekja áhuga okkar og sem við erum hrifnir af. Þeir eru ekki þeir einu og munum við núna vega og meta tækifærin. Við ætlum svo sannarlega ekki að borga meira en markaðsvirði leikmanna. Við verðum að finna mann í stað Kvara og ætlum ekki að halda okkur aftur. Við höfum líka aðrar hugmyndir þannig sjáum hvað gerist á næstu dögum,“ sagði Giovanni Manna, íþróttastjóri Napoli við DAZN.
Manchester United vill fá að minnsta kosti 50 milljónir punda fyrir Garnacho, en enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur einnig mikinn áhuga á honum og hefur verið talað um að félögin gætu gert skiptidíl þar sem franski sóknarmaðurinn Christopher Nkunku færi í hina áttina.
Athugasemdir