„Ég hef fylgst með fótbolta alla mína tíð og hef fyrir löngu lært þaði að spár segja lítið og þetta er einungis skemmtilegur samkvæmisleikur fyrir mót," segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Fótbolta.net.
Aftureldingu er spáð tíunda sæti í spá Fótbolta.net fyrir mótið. Mosfellingar eru að fara að leika sitt fyrsta tímabil í Bestu deildinni eftir að hafa farið með sigur af hólmi í umspili Lengjudeildarinnar í fyrra.
Aftureldingu er spáð tíunda sæti í spá Fótbolta.net fyrir mótið. Mosfellingar eru að fara að leika sitt fyrsta tímabil í Bestu deildinni eftir að hafa farið með sigur af hólmi í umspili Lengjudeildarinnar í fyrra.
„Við erum nýliðar í deildinni og erum mjög spenntir að takast á við fyrsta sumarið í sögu Aftureldingar í Bestu deildinni. Deildin er mjög sterk og allir leikir verða erfiðir. Við þurfum að vera hugrakkir og njóta þess að spila á meðal þeirra bestu eftir að hafa unnið fyrir því á síðasta tímabili. Við viljum meira og næsta skref hjá Aftureldingu er að festa okkur í sessi í Bestu deildinni."
Maggi segir undirbúninginn hafa gengið vel og það sé mikil spenna fyrir tímabilinu.
„Undirbúningurinn hefur gengið vel og strákarnir í liðinu hafa æft gríðarlega vel frá því í nóvember. Hópurinn er í góðu standi og liðsheildin gríðarlega öflug," segir Magnús.
„Strákarnir eru mjög spenntir fyrir komandi verkefni og það er mikil trú í hópnum. Stemningin í kringum liðið hefur verið frábær undanfarin ár og maður skynjar mikla spennu og eftirvæntingu í Mosfellsbæ fyrir Bestu deildinni í sumar. Við fengum frábæran stuðning í úrslitakeppninni í Lengjudeildinni í fyrra og ég vona að sá stuðningur fylgi liðinu eftir í Bestu deildinni. Það hefur verið gaman að mæta á völlinn í Mosó undanfarin ár og ég vona að fólk fjölmenni og styðji við bakið á okkur í sumar."
Hvernig horfirðu til baka á síðasta tímabil þegar Afturelding komst upp?
„Síðasta tímabil var mjög lærdómsríkt og það er lærdómur sem allir í liðniu og kringum liðið búa að fyrir þetta tímabil. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa ekki farið upp árið 2023 því ég tel að allt félagið og allir í kringum Aftureldingu séu tilbúnari í að takast á við Bestu deildina núna heldur en fyrir ári síðan. Endirinn á síðasta tímabili var frábær og við þurfum að taka þá stemningu með okkur inn í Bestu deildina," segir Magnús sem er mjög ánægður með leikmannahóp sinn.
„Ég er mjög ánægður með hópinn. Við fengum flotta viðbót fyrir áramót og þeir leikmenn sem komu til okkar hafa smellpassað í liðið innan sem utan vallar. Við höfum verið að skoða að bæta við einum leikmanni til viðbótar en viljum vanda valið. Það kemur í ljós hvort og þá hvenær nýr leikmaður bætist við hópinn."
En hver eru markmiðin fyrir sumarið?
„Markmið okkar er að spila af gleði í öllum leikjum og sýna hversu öflugt lið við erum með. Við verðum að hafa trú á okkar gildum og mæta hugrakkir í alla leiki. Fyrsta markmið hvað töfluna varðar er að festa okkur í sessi í Bestu deildinni."
„Stuðningurinn var geggjaður á síðasta tímabili og ég veit að Mosfellingar ætla að flykkjast á völlinn og styðja áfram við okkur í sumar. Ég skora á Mosfellinga að vera fjölmennari stuðningsmannahópurinn í stúkunni í fyrsta leik gegn Breiðabliki. Hlakka til að heyra í öllum Aftureldingar stuðningsmönnum í stúkunni!" sagði Magnús Már að lokum.
Athugasemdir