Stríðshrjáðir Palestínumenn spiluðu við Írak í undankeppni Asíuþjóða fyrir HM á næsta ári og voru marki undir stærsta hluta leiksins.
Liðin mættust í Amman, höfuðborg Jórdaníu, þar sem palestínska landsliðið spilar heimaleiki sína.
Írak leiddi 0-1 allt þar til undir lokin þegar Palestínumönnum tókst að jafna með skalla eftir hornspyrnu á 88. mínútu, við gífurlega mikinn fögnuð áhorfenda og leikmanna.
Fagnaðarlætin entust í rúma mínútu þar til menn tóku að spila fótbolta á ný, en ekki leið á löngu þar til afar óvænt sigurmark Palestínu leit dagsins ljós.
Aftur kom það eftir hornspyrnu frá hægri kanti nema að í þetta sinn var markið skorað á 97. mínútu, eða um hálfri mínútu eftir að uppgefinn uppbótartími var liðinn. Palestínumenn sigruðu þannig leikinn með síðustu snertingu leiksins og braust út gríðarlegur fögnuður á vellinum, sem má sjá í myndbrotunum sem fylgja hér fyrir neðan.
Þetta er fyrsti sigur Palestínu í undankeppni HM og sögulegur sigur fyrir þjóðina en aftur á móti mikill skellur fyrir Írak, sem hefði komist í annað sæti riðilsins með sigri.
Palestine [1] - 1 Iraq - Wessam Abou Ali 88'
byu/f4r1s2 insoccer
Palestine [2] - 1 Iraq - Ameed Mhagna 90'+7
byu/f4r1s2 insoccer
Athugasemdir