Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 26. júní 2022 12:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grétar fyrirlítur kjaftæði, talar hreint út og er með handaband úr stáli
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grétar á landsleik.
Grétar á landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og kom fram á dögunum þá var Grétar Rafn Steinsson, fyrrum landsliðsmaður Íslands, ráðinn í stórt starf á bak við tjöldin hjá Tottenham, sem er eitt stærsta félag Englands.

Að loknum leikmannsferlinum lauk Grétar Rafn meistaranámi í íþróttastjórnun við Johann Cruyff stofnunina í Barcelona og er hann einnig útskrifaður sem Level 5 Technical Director frá enska fótboltasambandinu.

Grétar hefur starfað á Englandi síðustu ár, fyrst sem yfirmaður fótboltamála hjá Fleetwood Town og svo var hann í stóru hlutverki á bak við tjöldin hjá Everton í leikmannamálum félagsins.

Síðustu mánuði er Grétar búinn að vera í tímabundnu ráðgjafastarfi hjá KSÍ þar sem hann hefur unnið að því að efla starf sambandsins. Hann mun hætta þar í sumar og færa sig yfir til Tottenham.

The Athletic fjallaði um það í síðustu hvernig Grétar væri í sínu starfi og af hverju hann væri búinn að ná svona langt.

Í greininni segir að samstarfsfólk hans hjá Tottenham verði að vera klárt því þarna er að koma inn maður sem er ekki að fara að bulla neitt. Hann segir hlutina hreint út og er ekkert í þessu til að eignast vini. Í greinni kemur fram að fólk muni ávallt eftir handabandi Grétars, það sé eftirminnilegt.

„Hjá fyrrum klúbbi hans Everton hlógu leikmennirnir að því hversu sterkt grip Steinsson er með og tóku þeir því fagnandi þegar Covid reglur komu í veg fyrir handabönd."

Einnig segir í greininni: „Hann er þekktur fyrir heiðarleika sinn, hreinskilni og algjöra fyrirlitningu á kjaftæði; hvort sem það er við umboðsmenn - sem almennt kunna þó að meta beina og hreina nálgun hans - eða samstarfsmenn sem honum finnst ekki vera að vinna vinnuna sína almennilega."

Rætt er við Marcel Brands, Hollending sem Grétar starfað með hjá Everton. Hann talar gríðarlega vel um Grétar og segir að það sé alltaf hægt að treysta á hann.

Grétar mun hefja störf hjá Spurs þann 1. júlí næstkomandi, en það var áhugi á honum á fleiri stöðum. Hann hefur vakið athygli fyrir það hvernig hann notar tölfræði mikið við sína vinnu. Hjá Spurs mun hann koma að leikmannamálum og einnig mun hann sinna vinnu sem snýr að íþróttavísindum. Hann mun bæði starfa í kringum aðalliðið og akademíuna og verður starf hans því víðamikið.
Athugasemdir
banner
banner