
„Tilfinningin er geggjuð. Eins og ég sagði við þig síðast, þá erum við háðir þessari sigurtilfinningu og hún er alveg hrikalega góð. Ég er ofboðslega glaður," sagði Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, eftir 0-1 sigur gegn Aftureldingu í Lengjudeildinni í kvöld.
„Ég er stoltur af strákunum."
„Ég er stoltur af strákunum."
Lestu um leikinn: Afturelding 0 - 1 Fjölnir
„Þeir eru mjög góðir að halda boltanum og við vissum að varnarleikurinn þyrfti að vera góður. Mér fannst við gera þetta frábærlega vel fyrri part fyrri hálfleiks og við áttum að skora fleiri en eitt mark á fyrstu 20 mínútum leiksins. Svo förum við aðeins að verja forskotið. Mér fannst við vera fullmikið að vera að verja forskotið og það munaði litlu að þeir næðu að jafna í lokin. Það sem skóp þennan sigur var varnarleikurinn og vinnslan í liðinu," sagði Úlfur.
Úlfur er fyrrum þjálfari Aftureldingar og þjálfaði Magnús Má Einarsson, núverandi þjálfara liðsins, á sínum tíma. Hann segir sigurinn extra sætan.
„Já, klárlega. Það er alltaf aðeins skemmtilegra að vinna þá sem þú þekkir eitthvað. Það er gaman að vinna sína gömlu félaga og ég bý í Mosfellsbæ. Krakkarnir mínir æfa hérna. Það verður gaman að fara í Krónuna á morgun og kaupa í matinn, hitta einhverja og blikka þá," sagði Úlfur.
Fjölnismenn hafa komið frekar mikið á óvart í sumar og eru í öðru sæti með jafnmörg stig og topplið Njarðvíkur. Þessi tvö lið eru svolítið að stinga af.
„Ég horfi ekkert á töfluna. Þetta gekk vel í byrjun og það var svo gaman á æfingum. Við töluðum bara um það: 'Er þetta ekki málið?' Að vinna hvern einasta leik svo það sé gaman á æfingum, að finna gleðina. Það er svo miklu skemmtilegra að vera í þessu þegar maður er að vinna. Við erum að elta þessa sigurtilfinningu."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir