„Mér fannst við eiga virkilega góðan fyrri hálfleik þar sem við fengum færi til að skora og komast yfir. Það hefur svolítið vantað hjá okkur í leikina að komast yfir því yfirleitt höfum við fengið fyrsta færið í leiknum sem hefur gengið illa að nýta. Síðan þegar að við fáum á okkur mörk verðum við svolítið litlir,” sagði Hólmar Örn Rúnarsson, spilandi þjálfari Víðis, eftir 0-2 tap gegn Haukum í dag.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Haukar komu sterkari inn í þann seinni og kláruðu leikinn með mörkum frá Kristófer Dan Þórðarsyni og Tómasi Leó Ásgeirssyni.
„Mörkin sem við fáum á okkur eru keimlík. Það koma fyrirgjafir sem við náum að leysa illa.”
Víðir hefur hingað til átt nokkuð slappt tímabil. Liðið er með 6 stig í 10.sæti eftir átta umferðir. Þá er markatala liðsins vægast sagt slæm. 4:23.
„Við þurfum í fyrsta lagi að fara að halda hreinu og við erum að vinna í því að reyna að laga varnarleikinn,” sagði Hólmar og bætti við að það þyrfti líka að laga sóknarleikinn.
„Að sjálfsögðu þurfum við líka að fara að skora eitthvað. Við höfum ekki verið að fá mýmörg færi en færin sem við fáum eru virkilega góð og við þurfum að taka þau ef við ætlum að fara að fá einhver stig.”
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir