mán 26. september 2022 21:43
Ívan Guðjón Baldursson
Einkunnir Englands: Pope og Maguire skúrkarnir
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Nick Pope og Harry Maguire voru verstu menn enska landsliðsins í 3-3 jafntefli gegn Þýskalandi á Wembley í kvöld samkvæmt Sky Sports.


Pope lenti ítrekað í vandræðum þegar hann fékk boltann í lappirnar og gerðist svo sekur um slæm mistök á lokamínútum leiksins sem gerðu þýsku gestunum kleift að jafna í 3-3. Þessi frammistaða er ekki að fara að gera honum neina greiða í byrjunarliðsbaráttunni við Jordan Pickford sem var fjarverandi vegna meiðsla.

Pope fær 4 í einkunn hjá Sky á meðan Maguire, fyrirliði Manchester United, fær 5 fyrir sinn þátt. Hann gerði tvö slæm mistök í leiknum, fyrst gaf hann Þjóðverjum vítaspyrnu sem Ilkay Gündogan skoraði úr og síðan tapaði hann boltanum á slæmum stað í öðru marki Þjóðverja.

Maguire hefur verið mikið undir smásjá enskra fjölmiðla að undanförnu og er búinn að missa byrjunarliðssætið sitt hjá Man Utd. Gareth Southgate, landsliðsþjálfari, kom leikmanninum til varnar á dögunum en gæti þurft að hugsa sig tvisvar um áður en hann velur Maguire í byrjunarliðið hjá sér aftur.

Luke Shaw, liðsfélagi Maguire hjá Man Utd, spilaði sem vinstri vængbakvörður og var besti leikmaður Englendinga á vellinum. Hann varðist gríðarlega vel, var orkumikill á vængnum og kórónaði svo góða frammistöðu með marki.

England: Pope (4), Shaw (8), James (6), Dier (6), Maguire (5), Stones (7), Rice (7), Bellingham (7), Foden (6), Kane (7), Sterling (7)
Varamenn: Walker (6), Mount (6), Saka (6), 


Athugasemdir
banner
banner
banner