Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
   mið 26. nóvember 2025 21:58
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Martröð Liverpool-manna ætlar engan endi að taka - Mbappe með fernu
Liverpool er í tómu tjóni
Liverpool er í tómu tjóni
Mynd: EPA
PSV skoraði fjögur á Anfield
PSV skoraði fjögur á Anfield
Mynd: EPA
Arsenal er í frábærum málum
Arsenal er í frábærum málum
Mynd: EPA
Mbappe skoraði fernu
Mbappe skoraði fernu
Mynd: EPA
Vitinha gerði þrennu gegn Tottenham
Vitinha gerði þrennu gegn Tottenham
Mynd: EPA
Englandsmeistarar Liverpool eru í dimmum dal þessa dagana en liðið tapaði enn einum leiknum er það laut í lægra haldi fyrir hollenska liðinu PSV Eindhoven, 4-1, í 5. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Tap Liverpool í kvöld var það níunda í öllum keppnum á tímabilinu og virðist Arne Slot ekki vera nálægt því að finna lausn á vandamálum liðsins.

Nýju leikmennirnir eru ekki búnir að ná að gerjast við þá sem voru fyrir og þá eru nokkrir mikilvægir menn úr Englandsmeistaraliðinu búnir að bregðast liðinu.

Í kvöld byrjaði þetta illa hjá Liverpool. Virgil van Dijk fékk á sig vítaspyrnu á 6. mínútu er hann handlék boltann í teignum með tilþrifum. Hann vildi fá aukaspyrnu á leikmann PSV sem hélt utan um hann, en fékk ekki og var dæmd vítaspyrna í staðinn.

Ivan Perisic skoraði örugglega úr spyrnunni og kom PSV í 1-0 forystu, en Dominik Szoboszlai jafnaði metin. Cody Gakpo átti skot sem markvörður PSV varði út á Szoboszlai sem setti boltann í tómt markið.

Liverpool spilaði ágætis fótbolta eftir markið og vildu heimamenn fá vítaspyrnu er Hugo Ekitike var tekinn niður í teignum á 20. mínútu en dómarinn sá ekkert athugavert við það og lét leikinn halda áfram.

Í síðari hálfleiknum kom Liverpool-liðið illa skipulagt til leiks og þegar rúmar 55 mínútur voru komnar á klukkuna tók Mauro Junior á rás, keyrði upp allan völlinn og átti þessa konfektsendingu inn á teiginn á Guus Til sem stýrði boltanum í netið.

Ibrahima Konate, sem hefur átt í löngum samningaviðræðum við Liverpool, gerði síðan afdrifarík mistök tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Hann tapaði einvígi gegn Ricardo Pepi sem keyrði inn að teignum, tók skot sem hafnaði í stönginni og út á Couhaib Driouech sem setti boltann framhjá Mamardashvili í markinu.

Eflaust margir stuðningsmenn Liverpool sem meira en tilbúnir að leyfa Konate að fara eftir tímabilið þegar samningur hans rennur út.

PSV var ekki hætt. Á lokamínútunum gerði Driouech annað mark sitt og fjórða mark PSV. Hann fékk boltann við vítateigslinuna eftir hraða sókn og stýrði þéttingsföstu skoti sínu neðst í hægra hornið.

Tap var niðurstaðan hjá Liverpool sem er í 13. sæti deildarkeppninnar með 9 stig eftir fimm leiki en PSV í 15. sæti með 8 stig.

Arsenal vann frækinn 3-1 sigur á Bayern München á Emirates-leikvanginum og Lundúnaliðið farið að gera sig líklegt til þess að berjast um alla mögulega titla á tímabilinu.

Jurrien Timber skoraði með skalla eftir hornspyrnu Bukayo Saka á 22. mínútu en hinn 17 ára gamli Lennart Karl jafnaði tuttugu mínútum síðar.

Noni Madueke kom inn fyrir meiddan Leandro Trossard seint í fyrri hálfleiknum og þakkaði traustið með því að koma Arsenal yfir á 69. mínútu.

Annar varamaður Arsenal, Gabriel Martinelli, gulltryggði sigur heimamanna á 76. mínútu. Arsenal keyrði í hraða skyndisókn, langur bolti fram völlinn á Martinelli sem setti boltann framhjá Manuel Neuer sem var kominn í skógarhlaup áður en hann lagði boltanum í netið.

Arsenal með fullt hús stiga á toppnum en Bayern í 3. sæti með 12 stig.

Kylian Mbappe skoraði fernu í mögnuðum 4-3 sigri Real Madrid á Olympiakos í Aþenu.

Hann skoraði þrennu á 6 mínútum og 42 sekúndum í fyrri hálfleik, sem er önnur fljótasta þrennan í sögu Meistaradeildarinnar.

Mehdi Taremi minnkaði muninn fyrir Olympiakos áður en Mbappe gerði fjórða mark sitt. Á lokamínútunum minnkaði Ayoub El Kaabi muninn. Hetjuleg barátta hjá Grikkjunum, en það var Real Madrid sem tók öll stigin.

Real Madrid er í 5. sæti með 12 stig en Olympiakos í 33. sæti með 2 stig.

Evrópumeistarar PSG unnu þá 5-3 sigur á Tottenham í svakalegum leik í París.

Richarlison skoraði annan leikinn í röð með Tottenham eftir undirbúning Randal Kolo Muani, en Vitinha jafnaði metin áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Kolo Muani, sem er á láni hjá Tottenham frá PSG, skoraði gegn franska liðinu á 50. mínútu, en PSG tók við sér eftir það og skoraði þrjú mörk í röð.

Vitinha gerði annað mark sitt áður en Fabian Ruiz og Willian Pacho bættu við.

Kolo Muani minnkaði muninn í 4-3 á 72. mínútu áður en Vitinha fullkomnaði þrennu sína með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.

PSG er í 2. sæti með 12 stig en Tottenham í 16. sæti með 8 stig eftir fimm umferðir.

Atlético vann þá dramatískan 2-1 sigur á Inter þar sem miðvörðurinn Jose Maria Gimenez gerði sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótartíma og þá unnu Atalanta og Sporting sannfærandi 3-0 sigra á Eintracht Frankfurt og Club Brugge.

Olympiakos 3 - 4 Real Madrid
1-0 Chiquinho ('8 )
1-1 Kylian Mbappe ('22 )
1-2 Kylian Mbappe ('24 )
1-3 Kylian Mbappe ('29 )
2-3 Mehdi Taremi ('52 )
2-4 Kylian Mbappe ('60 )
3-4 Ayoub El Kaabi ('81 )

Atletico Madrid 2 - 1 Inter
1-0 Julian Alvarez ('9 )
1-1 Piotr Zielinski ('54 )
2-1 Jose Gimenez ('90 )

Paris Saint Germain 5 - 3 Tottenham
0-1 Richarlison ('35 )
1-1 Vitinha ('45 )
1-2 Randal Kolo Muani ('50 )
2-2 Vitinha ('53 )
3-2 Fabian Ruiz ('59 )
4-2 Willian Pacho ('65 )
4-3 Randal Kolo Muani ('72 )
5-3 Vitinha ('76 , víti)
Rautt spjald: Lucas Hernandez, Paris Saint Germain ('90)

Sporting 3 - 0 Club Brugge
1-0 Geovany Quenda ('24 )
2-0 Luis Suarez ('31 )
3-0 Francisco Trincao ('70 )

Arsenal 3 - 1 Bayern
1-0 Jurrien Timber ('22 )
1-1 Lennart Karl ('32 )
2-1 Noni Madueke ('69 )
3-1 Gabriel Martinelli ('76 )

Eintracht Frankfurt 0 - 3 Atalanta
0-1 Ademola Lookman ('60 )
0-2 Ederson ('62 )
0-3 Charles De Ketelaere ('65 )

Liverpool 1 - 4 PSV
0-1 Ivan Perisic ('6 , víti)
1-1 Dominik Szoboszlai ('16 )
1-2 Guus Til ('56 )
1-3 Couhaib Driouech ('73 )
1-4 Couhaib Driouech ('90 )
Athugasemdir
banner
banner