„Þetta var mjög þroskuð og góð frammistaða hjá okkur. Það er gott að vinna sannfærandi. Mér fannst við eiga það inni," sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, eftir 7-0 sigur gegn Fram í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í dag.
Það var búist við sigri Breiðabliks fyrir leik þar sem Fram er í Lengjudeildinni en þetta var virkilega sannfærandi hjá Blikum. Fyrsta markið skoraði Kópavogsliðið á fyrstu mínútu og fylgdi liðið því vel eftir.
„Bikar er bara bikar, þú veist aldrei og þetta eru alltaf 50/50 leikir. Það er gott að klára þetta svona sannfærandi, þetta var mjög öruggt og gott."
Ásta, sem fékk á dögunum verðlaun frá Breiðabliki fyrir 250 mótsleiki fyrir félagið, skoraði í dag en það gerist ekki á hverjum degi.
„Það er mjög gaman að því, það gerist ekki oft. Ég held að ég skori á svona þriggja ára fresti. Ég var mjög sátt að pota inn einu. Núna er ég aðeins að hitna og fer að bæta í," sagði Ásta létt en hér fyrir ofan má sjá viðtalið í heild sinni þar sem hún ræðir meira um það hvernig sumarið hefur verið að byrja hingað til.
Athugasemdir