Mauricio Pochettino stjóri Chelsea hefur reglulega verið að keppa við Mykhailo Mudryk í sláarkeppni á æfingasvæði félagsins. Hann segist með þessu vera að reyna að auka sjálfstraust úkraínska vængmannsins.
Mudryk var keyptur frá Shaktar Donetsk fyrir um 89 milljónir punda í janúar en hefur ekki náð að skora í 22 leikjum sem heann hefur spilað fyrir Chelsea.
„Við höfum stundum verið að keppa um að reyna að hitta slána með skotum fyrir utan teig. Hann sagði við mig 'Ég vil ekki spila meira við þig því þú vinnur alltaf' - Ég sagði 'Já, ég vinn alltaf því ég hef trúna. Ég þekki jafnvægið milli trú og gæða mjög vel því ég er 50 ára gamall. Þú ert enn ungur og þarft að læra að þekkja sjálfan þig'," segir Pochettino.
„Í dag (þriðjudag) var fyrsti dagurinn þar sem við gerðum jafntefli, ég hef alltaf unnið. Hann mun vonandi byrja að hafa trú á sér og sínum gæðum."
Mudryk er 22 ára og skoraði 10 mörk í 18 leikjum fyrir Shaktar fyrri hluta tímabilsins 2022-23. Hann var nálægt því að ganga í raðir Arsenal áður en hann var keyptur til Chelsea.
Athugasemdir