Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fim 28. janúar 2021 10:05
Elvar Geir Magnússon
Þorsteinn Halldórsson nýr þjálfari kvennalandsliðsins (Staðfest)
Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson er nýr þjálfari kvennalandsliðsins en KSÍ hefur staðfest þetta á heimasíðu sinni.

Þorsteinn hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs Breiðabliks þar sem hann hefur náð frábærum árangri undanfarin ár.

Ásmundur Haraldsson snýr aftur í stöðu aðstoðarþjálfara en hann var aðstoðarmaður Freys Alexanderssonar þegar hann var með liðið.

Ráðningin á Þorsteini kemur ekki á óvart en Fótbolti.net sagði frá því í byrjun desember að hann væri líklegasti kosturinn eftir að Jón Þór Hauksson var látinn taka pokann sinn.

Af heimasíðu KSÍ:
KSÍ hefur ráðið Þorstein Halldórsson sem þjálfara A landsliðs kvenna og hefur hann þegar hafið störf.

Þorsteinn, sem er fæddur árið 1968, er reynslumikill þjálfari með UEFA A þjálfaragráðu. Þorsteinn hafði þjálfað hjá KR í fimm ár þegar hann tók við meistaraflokksliði kvenna hjá Breiðabliki árið 2014, en hafði áður m.a. starfað hjá Þrótti og Haukum. Hann stýrði liði Breiðabliks til Íslandsmeistaratitla árin 2015, 2018 og 2020, og til bikarmeistaratitla árin 2016 og 2018. Liðið komst einnig í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar árið 2019. Þorsteinn á sjálfur að baki yfir 200 leiki, þar af 150 í efstu deild, í meistaraflokki með Þrótti N., KR, FH og Þrótti R. og hefur leikið fyrir U19 og U21 landslið Íslands.

Ásmundur Haraldsson, fyrrum aðstoðarþjálfari A kvenna, verður aðstoðarmaður Þorsteins. Ásmundur var aðstoðarþjálfari A landsliðs kvenna árin 2013 til 2018.

Fyrstu leikir A landsliðs kvenna á árinu 2021 eru þrír leikir á æfingamóti í Frakklandi, en þar mætir liðið Frakklandi, Sviss og Noregi. Undankeppni HM 2023 hefst síðan í haust, en dregið verður í riðla í vor.

KSÍ býður Þorstein velkomin til starfa!
Athugasemdir
banner
banner
banner