sun 28. mars 2021 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Santos: Ekki boðlegt fyrir keppni í þessum gæðaflokki
Santos hefur stýrt portúgalska landsliðinu í tæplega 7 ár.
Santos hefur stýrt portúgalska landsliðinu í tæplega 7 ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgal, var brjálaður að leikslokum eftir 2-2 jafntefli gegn Serbíu í undankeppni fyrir HM í gærkvöldi.

Staðan var jöfn og komust Portúgalir í sókn á síðustu mínútu uppbótartímans. Boltinn barst til Cristiano Ronaldo sem náði að setja hann undir markvörðinn en Stefan Mitrovic bjargaði á línu.

Boltinn virtist fara yfir marklínuna en engin marklínutækni til staðar og trylltist Ronaldo þegar ekkert mark var dæmt.

„Ég hef enga útskýringu á þessu marki sem fékk ekki að standa. Boltinn var kominn rúmlega hálfan meter yfir línuna, þetta á ekki að vera mögulegt í nútíma fótbolta," sagði Santos.

Danny Makkelie dæmdi viðureignina og segir Santos dómarann hafa beðið sig afsökunar eftir lokaflautið.

„Dómarinn er nýbúinn að biðja mig afsökunar. Þetta er í annað sinn sem dómari biður mig afsökunar eftir leik í undankeppninni, það er ekki boðlegt fyrir keppni í þessum gæðaflokki. Það er ótrúlegt að það sé hvorki VAR né marklínutækni í undankeppni fyrir Heimsmeistaramótið. Ég skil að dómarar geri mistök en þá verður tæknin að taka við.

„Afsökunarbeiðni frá dómara leysir ekki vandamálið. Leikurinn endar ennþá með jafntefli. Næst eigum við mikilvægan leik í Lúxemborg sem við verðum að vinna."

Athugasemdir
banner
banner
banner