Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   sun 28. maí 2023 21:21
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: FH hafði betur gegn HK í háspennuleik - Ægir Jarl afgreiddi Stjörnuna
watermark FH-ingar unnu HK-inga í sjö marka leik
FH-ingar unnu HK-inga í sjö marka leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Ægir Jarl Jónasson skoraði sigurmark KR-inga
Ægir Jarl Jónasson skoraði sigurmark KR-inga
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
FH er komið í 4. sæti Bestu deildar karla eftir að hafa unnið HK, 4-3, í háspennuleik í Kaplakrika í dag. Úlfur Ágúst Björnsson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skoru báðir tvívegis fyrir FH-inga. KR lagði þá Stjörnuna, 1-0, á Meistaravöllum.

Áhorfendur fengu allt fyrir peninginn í Kaplakrika. Fyrri hálfleikurinn var með þeim líflegri sem við höfum séð í sumar en á 6. mínútu leiksins komust HK-ingar í 1-0.

Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, ætlaði að kýla boltann í burtu en það endaði með klafsi og virtist boltinn fara af Jóhanni Ægi Arnarssyni og í netið.

FH-ingar herjuðu að marki HK í kjölfarið og uppskáru þeir jöfnunarmark. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skoraði auðvelt mark eftir að Davíð Snær Jóhannsson slapp í gegn. Í stað þess að skjóta ákvað hann að renna boltanum á Gyrði sem gat ekki annað en sett boltann í markið.

Fimm mínútum síðar komust HK-ingar aftur í forystu og var það af dýrari gerðinni. Eyþór Aron Wöhler kom með fyrirgjöf sem var ætluð Örvari Eggertssyni en FH-ingar hreinsuðu boltann út í D-bogann. Þar var Arnþór Ari Atlason klár, náði valdi á boltanum og teiknaði hann upp í vinstra hornið.

FH-ingar höfðu verið sterkari aðilinn í leiknum en ekki náð að nýta færin sín nógu vel. Þeim tókst að jafna á 37. mínútu. Davíð Snær átti skot sem fór í stöngina og byrjuðu FH-ingar að fagna en boltinn var þó ekki kominn inn og var það Úlfur Ágúst Björnsson sem gulltryggði það að boltinn færi í netið.

Heimamenn gátu farið með forystu inn í fyrri hálfleikinn en klúðruðu nokkrum frábærum færum og staðan því jöfn þegar flautað var til hálfleiks.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn á því að komast í 3-2 og var það Eyþór Wöhler sem gerði það með stórkostlegu skoti úr D-boganum. Eitt af mörkum tímabilsins til þessa.

Gyrðir Hrafn jafnaði aftur fyrir FH á 58. mínútu með skalla sem fór af Arnari Frey Ólafssyni, markverði HK, og í netið. Markið var þó umdeilt þar sem Eggert Gunnþór Jónsson sem stóð ofan í Arnari og virtist hafa áhrif á leikinn en markið dæmt gilt.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir skoraði Úlfur Ágúst sigurmarkið í mögnuðum leik. Misskilningur í vörn HK varð til þess að Kjartan komst í gegn. Hann lagði boltann út á Davíð, sem missti af honum en Úlfur var klár í að klára færið.

Stórkostlegur leikur í Kaplakrika sem endaði með 4-3 sigri FH-inga og liðið nú í 4. sæti með 16 stig, þremur meira en HK sem er í 5. sætinu.

Ægir Jarl hetjan er KR vann annan leikinn í röð

KR vann annan leik sinn í röð er liðið sigraði Stjörnuna, 1-0, á Meistaravöllum.

Jakob Franz Pálsson bjargaði marki á 29. mínútu er Daníel Laxdal náði að pota boltanum í átt að marki eftir fyrirgjöf en Jakob Franz var réttur maður á réttum stað og bjargaði í horn.

Jafnræði var með liðunum en það var lítið um dauðafæri og staðan markalaus í hálfleik. Aron Þórður Albertsson átti fínasta skot í upphafi síðari en Árni Snær Ólafsson gerði vel í að verja skotið.

KR-ingar voru hættulegri í síðari hálfleiknum og átti Finnur Tómas Pálmason besta færið á 69. mínútu en Árni varði með hægri fæti og bjargaði Stjörnumönnum.

Hann gat hins vegar ekki komið liðinu til bjargar tíu mínútum síðar. Jóhannes Kristinn Bjarnason átti hornspyrnu inn í teiginn og var það Ægir Jarl Jónasson sem flikkaði boltanum aftur fyrir sig og í netið.

Þetta reyndist sigurmarkið og annar sigur KR í röð staðreynd en liðið er komið upp í 8. sæti með 10 stig á meðan Stjarnan er í 10. sæti með 7 stig.

Úrslit og markaskorarar:

FH 4 - 3 HK
0-1 Jóhann Ægir Arnarsson ('6 , sjálfsmark)
1-1 Gyrðir Hrafn Guðbrandsson ('12 )
1-2 Arnþór Ari Atlason ('17 )
2-2 Úlfur Ágúst Björnsson ('37 )
2-3 Eyþór Aron Wöhler ('47 )
3-3 Gyrðir Hrafn Guðbrandsson ('58 )
4-3 Úlfur Ágúst Björnsson ('70 )
Lestu um leikinn

KR 1 - 0 Stjarnan
1-0 Ægir Jarl Jónasson ('79 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner